144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:55]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir spurningarnar og andsvarið. Byrjum á eftirlitsiðnaðinum. Ég er ekki með tiltækar þær tölur sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hafði á blaði áðan um hlutföll og þróun í því sem við getum þá kallað eftirlitsiðnað. Ég vil ekki meina að það sé neitt neikvætt en ég get sagt almennt að ég er fylgjandi því að markaðurinn eigi að hafa með höndum þá atvinnustarfsemi sem hann ræður við og þær samkeppnisaðstæður sem bjóða upp á slíkt. Um leið og við förum þá leið er mjög mikilvægt að eftirlit sé með markaði, til að mynda samkeppniseftirlit. Af því að ég nefni það í þessu samhengi vil ég segja að virk samkeppni er algjört lykilatriði á markaðnum. Það er eitt dæmi um mjög mikilvæga eftirlitsstofnun sem ég tel að við þurfum að styrkja enn frekar og huga að lagaumhverfi í því efni.

Varðandi tryggingagjaldið hefði maður vonað að það hefði verið hægt að fara hraðar í að lækka það og meira jafnvel, en það hefur þó verið gert eins og kemur fram í þessari áætlun. Það er mjög gott fyrir atvinnulífið að sjá fram í tímann hver sú lækkun verður.