144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:02]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir spurningarnar. Fyrri spurningin sneri að tekjuskatti sem kemur fram á bls. 34 að eigi að fara í eitt þrep, að það sé skilvirkara. Ég er ekki á þessari stundu tilbúinn að kvitta undir að það sé endilega leiðin. Ég þarf þá að sjá algjörlega fyrir að það komi ekki niður á jöfnuði. Jöfnuður er okkur afar mikilvægur. Það er mjög jákvæð þróun sem er að gerast í allri umræðu um jöfnuð í heiminum. Alþjóðastofnanir, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, OECD, hver sem er, benda á að jöfnuður sé ein af lykilforsendum hagvaxtar. Það er það sem við erum að einblína á þegar við erum að hreyfa til skattkerfið. Ég skal kvitta undir það þegar ég er búinn að sjá það fyrir, ígrunda það og staðfesta að eitt þrep tryggi jöfnuð — en fyrr ekki. Ég hef jöfnuðinn algjörlega til viðmiðunar og að leiðarljósi þegar við erum að skoða tekjuskattskerfið.

Seinni spurningin sneri að aðhaldsmarkmiði. Ég held að öll aðhaldsmarkmið almennt séu jákvæð. Þau leiða til þess að við skoðum öll horn, allar leiðir, alla möguleika til að spara. Hér kemur fram að það er svigrúm víða til að leita sparnaðar, t.d. í öllu kerfi varðandi opinber innkaup. Forgangsröðunin er alltaf (Forseti hringir.) í grunnkerfunum okkar, heilbrigðiskerfinu, velferðarkerfinu, menntakerfinu, samgöngunum.