144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:07]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir góða ræðu. Þetta er þannig mál að maður getur sökkt sér ofan í mismunandi liði þess á löngum tíma. Eitt sem stingur mann að sjálfsögðu mjög í þessu er vaxtagjöld hins opinbera og það er mjög sláandi að Ísland virðist vera að setja eitthvert met í þessu eins og svo mörgu öðru. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvernig hann teldi að forgangsröðunin eigi að vera varðandi það að stemma stigu við þessum gríðarlega miklu vaxtagjöldum.

Það er mjög mikilvægt að fá þetta yfirlit yfir ríkisfjármálin en mig vantar pínulítið að skilja heildarmyndina. Við erum með mjög mörg stór úrlausnarefni og það eru þannig tímar að ef við gerum ekki hlutina á réttum tíma getum við misst af tækifærum og það kemur síðan aftur í hausinn á okkur, t.d. út af auknum vaxtagjöldum.

Ég ætla að spyrja þingmanninn í seinna andsvari út í húsnæðismálin af því að það hangir að sjálfsögðu með þessu, en fyrst og fremst hef ég áhuga á að heyra einhverjar hugmyndir um hvernig við eigum að díla við þessi rosalega háu vaxtagjöld.