144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:09]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir andsvar hennar og spurningu sem snýr að mjög veigamiklu og stóru máli. Það jákvæða við þessa umræðu og að leggja fram þessa áætlun hér, eins og hæstv. fjármálaráðherra gerir, er að það kallar fram akkúrat þessar veigamiklu spurningar.

Skuldir ríkissjóðs eru miklar og það tengist stórum málum eins og til að mynda hvernig fer með losun hafta og því að setja stöðugleikann í algjöran forgang í þeim efnum. Það kemur meðal annars fram í þessari áætlun að hluta til með samanburði við aðrar þjóðir o.s.frv. Alvarleikinn er, það er ekkert verið að draga dul á hann, hversu hátt hlutfall þetta er af vergri landsframleiðslu og hvað við erum að greiða á ári í vexti. Það blasir við, af því að þetta eru skuldir, að horfa á efnahagsreikninginn og eignirnar á móti, til að mynda sem við eigum í fjármálafyrirtækjum, að gera okkur peninga úr þeim og greiða skuldirnar, þær skuldir sem stofnað var til á móti, m.a. við að endurreisa hér fjármálakerfið. Það finnst mér eðlilegasti gangurinn í þessu verkefni.