144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:14]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Forseti. Við ræðum ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019 sem hæstv. fjármálaráðherra leggur nú fram. Ég vil byrja á að þakka honum og starfsfólki fjármálaráðuneytisins fyrir þá vinnu sem liggur að baki áætluninni. Í þessu plaggi má finna fögur fyrirheit þar sem lofað er að megininntak ríkisfjármálaáætlunarinnar sé stöðugur og sjálfbær hagvöxtur og ef það gangi eftir séum við að sigla inn í eitt lengsta hagvaxtarskeið í sögu Íslands, hvorki meira né minna. Þetta eru ansi stór og mikil orð sem fjármálaráðherra getur vonandi staðið við, okkur öllum til heilla, og ég óska honum og okkur að sjálfsögðu að þau gangi eftir. Ég hef þó lært í störfum mínum að temja mér að vera varkár í öllu tali og spám sem lúta að ríkisfjármálum enda er ansi margt afar óvíst í þessu plaggi svo ekki sé meira sagt. Mesta áhyggjuefnið er að óvissuna í ríkisfjármálastefnunni fyrir næstu fjögur árin er að finna í stærstu efnahagslegu úrlausnarefnunum sem ríkisstjórnin stendur nú frammi fyrir og því miður, eins og staðan er í dag, eru þessi úrlausnarefni sem svo mikil óvissa ríkir um grunnurinn að því plaggi sem við erum að ræða hér í dag, losun fjármagnshafta annars vegar og staðan á vinnumarkaði hins vegar.

Eins og réttilega er gerð grein fyrir í ríkisfjármálastefnunni er gríðarlega mikilvægt að vel sé staðið að losun fjármagnshafta en því miður virðist ríkisstjórnin ekki vera með nógu afgerandi stefnu eða vera nógu skýr eða tala einum rómi eða vera með einhverja áætlun um þau miklu og stóru mál. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar tala því miður út og suður í þeim efnum og eftir sitjum við skattborgarar og vitum hvorki upp né niður hvert rekur eða stefnir í því stóra máli eða hverju við eigum að trúa, svo það komi líka fram. Það kom líka fram í dag á þinginu að samráðsnefnd um losun fjármagnshafta hefur til að mynda ekki hist síðan í desember. Það er gríðarlega alvarlegt að staða mála sé þannig.

Síðan er staðan á vinnumarkaði sem hér er réttilega fjallað um að sé annað stærsta efnahagslega úrlausnarefnið í ríkisfjármálum. Kjaramálin eru vissulega lykillinn að velgengni og stöðugleika. Við vitum þó öll hvernig staðan á vinnumarkaði er, hún er í fullkominni upplausn og ekkert sem bendir til þess að verið sé að vinna markvisst að þeim málum, því miður. Eftir sitjum við og klórum okkur í höfðinu yfir því hvort þetta plagg geti staðið óbreytt eins og það er kynnt hér í dag.

Þetta eru afar stórir óvissuþættir í efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar sem fjármálaráðherra leggur fram. Síðan er hið pólitíska inntak sem finna má í þessu plaggi, sú stefna að lækka verulega samneysluna. Þingmenn sem töluðu á undan mér hafa talað um það. Hvað þýðir þetta og hvar kemur þetta fram? Jú, þetta kemur bersýnilega fram á bls. 38 þar sem lesa má stefnumið um útgjaldaþróun, en þar er gengið út frá því stefnumiði að raunvöxtur útgjaldahliðarinnar verði hægari en sem nemur raunvexti vergrar landsframleiðslu fram til ársins 2019. Það felur í sér að hlutfall frumgjalda án óreglulegra liða af vergri landsframleiðslu lækkar um 1 prósentustig, úr 24,4% árið 2015 í 23,4% árið 2019. Það er rétt að taka fram að þetta er mjög lág tala, hún er örlítil og þýðir í raun og veru að svo lítil sneið af þjóðarkökunni fer í að reka velferðarkerfið og styrkja innviði samfélagsins að það verður til þess að þessir nauðsynlegu innviðir okkar allra í samfélaginu veikjast. Það er það sem kemur fram í þessu plaggi um ríkisfjármálaáætlun fyrir næstu fjögur ár. Það er ekki góð pólitík, það er ekki framtíðarpólitík og það er heldur ekki pólitík sem ber virðingu fyrir eldri kynslóðinni. Þetta er að auki mjög lágt hlutfall frumgjalda í samanburði við Norðurlöndin sem við viljum alltaf vera að bera okkur saman við. Við viljum alltaf vera að bera okkur saman við Norðurlöndin þegar kemur að lífsgæðum, hagvexti, velferðarkerfi og innri innviðum samfélagsins. Hvernig er líka hægt að lækka töluna sem snýst um samneysluna þegar kakan er að stækka? Er þetta kannski bara kaka sem aðeins fáir útvaldir geta fengið sér sneið af? Mér er spurn.

Verulegt áhyggjuefni er líka að í ríkisfjármálaáætluninni næstu árin er ekki gefið í þegar kemur að framkvæmdum á vegum ríkisins. Það vekur satt að segja ugg í brjósti. Við erum að bíða eftir samgönguáætlun og fleiri áætlunum sem fela í sér framkvæmdir ríkisins. Þegar við tölum um framkvæmdir ríkisins erum við að tala um skóla, hjúkrunarheimili, vegi og flugvelli, en kannski er best að beina sjónum okkar að þeim framkvæmdum sem lúta beint að þjónustu við fólk. Hvernig stendur eiginlega á þessu? Hvernig stendur á því að hér er boðað að það sé ekkert svigrúm til fjárfestinga af hálfu ríkisins? Er það yfirlýst stefna að hér verði engir skólar, hjúkrunarheimili, þjónustustofnanir og heilsugæslustofnanir, þetta verði ekki byggt hér, ekki flugvellir eða vegir næstu árin? Eigum við þá bara að samþykkja það sisona?

Mig langar líka að vekja athygli á því að þegar kemur að framleiðninni í því ágæta plaggi sem við erum að ræða hér er bara veðjað á eina atvinnugrein, ferðaþjónustuna. Það er gott og blessað að hér er ferðaþjónustunni hrósað enda hefur hún verið einn helsti grundvöllur að hagvexti hér á landi síðustu árin en ég geld varhuga við því að veðjað sé á eina atvinnugrein og stórkarlalega uppbyggingu á stórum hótelum og „stækkun þjónustueininga“ eins og það er orðað hér. Við vitum öll að það er varhugavert að setja öll eggin í sömu körfuna og við þurfum að muna að hér þarf líka að fjárfesta í innviðum og fjölbreytileika íslensku ferðaþjónustunnar. Við þurfum að hugsa til framtíðar. Þegar ég tala um að fjárfesta í innviðum þessarar mikilvægu atvinnugreinar er ég að tala um langtímafjárfestingu sem felst í fjárfestingu í menntun í ferðaþjónustu, stuðningi við minni ferðaþjónustufyrirtæki, stuðningi við sprotafyrirtæki í ferðaþjónustu o.s.frv. Við getum ekki bara byggt hér stór hótel og veðjað svo á að þetta bjargist og við munum halda áfram að græða á ferðamönnunum sem hingað koma.

Annað mikið áhyggjuefni er að hér er vitnað í spár Hagstofunnar um að atvinnuleysi dragist ekki nógu mikið saman næstu árin. Hér kemur ekkert fram um einhvers konar aðgerðir til að draga úr því, það er bara líkt og ríkisstjórnin sé búin að sætta sig við þær atvinnuleysistölur sem við búum við. Það væri gaman að fá nánari skýringu á því hvort hér sé einhvers konar stefna um að minnka atvinnuleysið meira.

Af því að tíminn er að renna frá mér langar mig að tæpa örstutt á að í kaflanum um tekjur ríkissjóðs og spá um þróun tekna ríkissjóðs er, líkt og boðað hefur verið, verið að gefa frá sér tekjur ríkissjóðs með lækkun skatta. Miðað við forsendur þessarar áætlunar á að fara úr 29,9% árið 2014 niður í 26,7% árið 2019, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, og gefa frá sér tekjur sem því nemur. Því miður virðist síðan veðjað á móti að hér muni efnahagsumhverfið leiða af sjálfu sér til þess að við fáum einhvers konar tekjur á móti. Þetta þykir mér óábyrg stefna. Við þurfum að hafa eitthvað fastara í hendi. Við getum ekki afhent tekjur ríkissjóðs sisona. Afkomubatinn er því miður hægur, eins og fram kemur í þessari áætlun, og ekki í takt við gífuryrðin um að hér sé um tímamótaplagg að ræða. (Forseti hringir.) Vonandi verður líka hægt að aflétta þessari óvissu sem ríkir í grunninum að áætluninni, sem er losun fjármagnshafta og staðan á vinnumarkaði.