144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:26]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Það er ekki nema von að hún spyrji vegna þess að þetta eru gríðarlega stórir óvissuþættir. Í þessari áætlun er vandlega farið yfir það hversu mikil óvissa losun fjármagnshafta er og hversu mikilvægt það er að vel sé staðið að henni. Við vitum það öll, a.m.k. sem hér sitjum inni, að það þarf að vanda öll skref sem tekin eru í því efni. Það má einmitt ekki fara í einhvers konar upphlaup, að fresta fundum o.s.frv., eins og fram kom á þinginu í dag. Varðandi losun hafta þarf líka að fara hægt af stað. Þetta þarf að gerast í rólegum og öruggum skrefum en ekki eins og sumir þingmenn stjórnarliðsins hafa boðað, að þetta þurfi að gerast einn, tveir og þrír. Vegna þessa óvissuþáttar er ekki hægt að gefa út neinar spár um þær tekjur ríkissjóðs sem gætu skapast við losun fjármagnshafta. Það er gríðarlega stór óvissuþáttur í þessu plaggi og reyndar líka þegar kemur að tekjum ríkissjóðs.

Örstutt um vinnumarkaðinn þar sem tíminn hleypur frá mér, mér finnst ansi skrýtið og mikið áhyggjuefni hversu illa ríkisstjórnin er undirbúin fyrir yfirstandandi kjaraviðræður. Það er ekki eins og ríkisstjórninni eigi að koma þetta á óvart. Það var samið til skamms tíma við launafólk um 2,8% launahækkanir. Það náðist ákveðinn stöðugleiki með því en síðan voru samningar lausir. Það ætti ríkisstjórnin að sjálfsögðu að vita og hún hefði átt að geta undirbúið sig fyrir þá stöðu. Í þessari áætlun er ítrekað varað við upphlaupi þegar kemur að launahækkunum og í raun og veru (Forseti hringir.) eru mjög skýr skilaboð til launafólks um að krefjast ekki of mikils, það muni sprengja allar áætlanir. Þegar þessi tvö (Forseti hringir.) … koma saman mundi ég halda að það þyrfti að gefa út annað plagg.