144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:31]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi orð og fyrir að vekja athygli á því hvort Framsóknarflokkurinn sé sáttur við þessa áætlun. Hér er sannarlega bæði verið að draga úr framkvæmdum á vegum ríkisins og þar með, eins og ég rakti aðeins áðan, hlýtur það að þýða að draga úr framkvæmdum á byggingum á hjúkrunarheimilum, þjónustustofnunum, skólum o.s.frv. Það væri áhugavert að heyra hvað fulltrúum Framsóknarflokksins finnst um það.

Síðan er akkúrat það sem hv. þingmaður vakti athygli á og ég talaði um áðan, lækkun á samneyslunni. Ég er ekki með nákvæmar tölur þegar kemur að samneyslunni, hvernig hún er annars staðar á Norðurlöndunum en mig rámar í nákvæmlega sömu hluti og hv. þingmaður talar um, að það séu um 30%. Þetta er að minnsta kosti mun lægri tala en annars staðar á Norðurlöndunum og það rímar bara alls ekki við það að vilja bera sig saman við nágrannalöndin hvað varðar hagvöxt og lífsgæði.

Það hlýtur að þýða að verið er að draga úr þessari velferðarþjónustu og þjónustu hins opinbera í menntakerfi, velferðarkerfi og heilbrigðiskerfi. Það er ekki hægt að túlka þetta neitt öðruvísi en svo. Þetta er sterkt pólitískt plagg sem væri áhugavert að fá fleiri þingmenn í salinn til að tjá sig um en hv. þm. Willum Þór Þórsson.