144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:35]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur kærlega fyrir þessa ábendingu sem ég kom ekki að í máli mínu, þ.e. þessum áhyggjum sem birtast hér og eru tölur frá Vinnumálastofnun um hlutfall háskólamenntaðra atvinnulausra sem hefur aukist einmitt um 5 prósentustig á tveimur árum.

Ég heyri að hv. þingmaður er á sömu slóðum og ég var að minnast á áðan, þ.e. ég sakna þess að sjá ekki fjölbreyttari stefnu þegar kemur að þessari stærstu atvinnugrein þjóðarinnar, atvinnugrein sem hefur vaxið svona gríðarlega mikið þar sem erlendur gjaldeyrir er hvað mestur. Hún er farin fram úr sjávarútveginum og stóriðjunni, þeim stóru atvinnugreinum. Að sjálfsögðu þurfum við að draga einhverjar línur um og leggja drög að því að fá tekjur úr þessari stóru og miklu atvinnugrein og að sama skapi fjárfesta í henni til framtíðar, auka hlutfall háskólamenntaðra, auka menntunarmöguleika fólks í greininni, styðja með einhverjum hætti við sprotafyrirtæki innan ferðaþjónustunnar. Ég mundi líka vilja sjá áframhaldandi uppbyggingu á ferðamannaþjónustu.

Það virðist ekki vera áhyggjuefni ríkisstjórnarinnar. Eins og ég rakti í stuttu máli áðan er hér lögð til stórkarlaleg uppbygging á stórum hótelum og stórum þjónustueiningum. Við vitum að það hefur ekki aðdráttarafl á fólkið sem kemur hingað, heldur íslensk náttúra og þetta sem við þekkjum öll. Ég held að það væri verulega framsýnt (Forseti hringir.) af fjármálaráðherra að „útvikla“, ef ég má sletta, forseti, bæði fjárfestingu í þessari grein og menntun.