144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

kjarasamningar og verkfallsréttur.

[15:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það kann vel að vera að stjórnarandstaðan sjái mikil sóknarfæri í því að deilur séu á vinnumarkaði, en ég held að við þurfum að gera okkur grein fyrir því að ef illa fer er það tjón fyrir allt samfélagið. Ég hef einungis vakið athygli á því að með nýlegri niðurstöðu félagsdóms, það er nýfengin niðurstaða, er sú staða komin upp að menn geta farið í verkfall á einstaka stofnunum og haft verkfallssjóð heils félags á bak við sig í þeim aðgerðum. Það setur hlutina í nýtt samhengi og ég hef vakið athygli á því. Ég held að sé nauðsynlegt að ræða það og menn eiga ekki að forðast þá umræðu. Í því felst engin hótun og ég hef aldrei boðað það að verkfallsréttur verði tekinn af neinum. Ég hef aldrei gert athugasemdir við að stéttarfélög vinni í þágu félagsmanna sinna og stilli fram kröfum, ég hef bara reynt að beina umræðunni í þann farveg að við ræðum hvað raunhæft er að gerist og að við leggjum eitthvað upp úr því á sama tíma að hér sé stöðugt verðlag og að við vinnum í átt að lægri vöxtum. Ég verð líka að segja að mér finnst mikill skaði að því fyrir samfélagið.

Það má spyrja spurninga í þessari umræðu, ekki satt? Eins og til dæmis þessarar hér, ég spyr bara opið: Er það sjálfsagt og eðlilegt að lykilstofnanir í samfélaginu séu teknar í gíslingu í verkfallsaðgerðum eins og við stóðum frammi fyrir í læknaverkfallinu og eins og við stöndum frammi fyrir núna? Hátt í 100 manns fá ekki á krabbameinsmeðferð í dag sem þurfa á henni að halda, 100 manns. Hversu lengi eigum við að sætta okkur við það eða verðum við bara að ganga að kröfum þeirra sem við sitjum á móti við samningaborðið vegna þess að það er eðlileg framkvæmd á verkfallsréttinum? Við verðum að geta tekið þá umræðu, ekki satt? Ég er ekki að gera annað en það, algjörlega án allra hótana, ég er bara að reyna að vinna í þágu samfélagsins í heild til þess að við náum niðurstöðu í þessari lotu kjaraviðræðna á sama tíma og við reynum að komast hjá því að setja allt í uppnám.