144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

siðareglur fyrir stjórnsýsluna.

[15:24]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langaði að vita hvort ég gæti ekki tekið upp við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra umræðuna um siðareglur þingmanna og ráðherra, sem var fyrirspurn til forsætisráðherra hérna áðan.

Fólk í samfélaginu er orðið mjög þreytt á öllum þessum feluleik með hagsmuni og að ekki sé allt uppi á borðinu hvað það varðar og jafnvel þótt í sumum tilfellum sé ekki hægt að komast hjá því þá þarf það að vera þannig að menn geri a.m.k. grein fyrir hagsmunum sínum þannig að það sé ljóst fyrir umræðuna, eins og er m.a. gert ráð fyrir í drögum sem verið er að vinna í forsætisnefnd. Það er eðlilegt, þetta er hjá mörgum öðrum þjóðþingum í heiminum. Þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst aukið gegnsæi um að hægt sé að hafa eftirlit og fylgjast með því að þeir sem fara með almannavald nýti það ekki í þágu sérhagsmuna. Það er það sem þetta snýst allt saman um, það er eðlileg krafa.

Staðan sem uppi er núna er sú að leiðin sem menn fara er að mestu leyti gegnum siðareglur, sem er gott. Siðareglur er gott að hafa vegna þess að þær koma okkur af stað, setja ákveðinn ramma sem síðan er hægt að skoða og fara að leiða í lög.

Í þingsköpum segir að það eigi að setja siðareglur fyrir Alþingi. Ákvæði um það hefur verið í töluverðan tíma í þingsköpum, sem eru lög, en forsætisnefnd hefur ekki tekist að klára málið. Síðan er til siðareglur fyrir Stjórnarráðið sem núna eru horfnar og eiga að vera bara til hliðsjónar o.s.frv. Í ljósi þess langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, formann Sjálfstæðisflokksins, hvað honum finnst um þessi atriði sem varða gagnsæi, eftirfylgni og eftirlit almennings með að ekki sé farið með almannavald þeirra í þágu sérhagsmuna og sérstaklega hvort hæstv. ráðherra telji að það sé nægilegt að hafa siðareglur, hafa þær bara til hliðsjónar, þær gleymast og hverfa, eða hvort hann telji ekki að það þurfi að leiða í ríkara mæli í lög þessa öryggisgæslu almennings og eftirlit almennings með okkur.