144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

siðareglur fyrir stjórnsýsluna.

[15:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Einhverra hluta vegna gekk mér illa að koma réttu heiti á stofnuninni í umræðunni áðan og ég ætla að nota þetta tækifæri til að segja að hún heitir örugglega Félagsvísindastofnun.

En varðandi siðareglur þá geta þær gegnt mjög mikilvægu hlutverki og við höfum sammælst um að taka þær upp í ríkari mæli á undanförnum árum. Einhverjar kostulegustu siðareglur sem ég hef samt séð á undanförnum árum eru siðareglur Blaðamannafélags Íslands sem eru stuttar og hnitmiðaðar, almennt orðaðar. Þær eru til staðar en það er eiginlega aldrei hægt að grípa nokkurn einasta mann fyrir að fara ekki eftir þeim.

Reglurnar sem við höfum verið að innleiða í stjórnsýslunni eru víðtækari og ítarlegri og ég tel að gagnsemi þeirra byggi fyrst og fremst á almennri samstöðu um að þeim sé fylgt. Ég hef þó ávallt verið þeirrar skoðunar að gjalda beri varhuga við því að treysta um of alfarið á að reglurnar séu til staðar, að þar sem þær séu til staðar þá hljóti allt að vera í lagi. Það aðhald sem þarf að birtast m.a. frá fjölmiðlunum og frá almenningi í landinu, frá þingheimi og öðrum með framkvæmd stjórnsýslunnar er auðvitað grundvallarþátturinn. Hann hefur líka gengið vel, ágætlega í gegnum árin og áratugina jafnvel þrátt fyrir að við værum ekki með reglur til staðar.

Eitt sem ég tel að við gætum gert betur á þinginu til að tryggja betri eftirfylgni væri að taka upp þá reglu, af því að hér er verið að vísa til gagnsæis, að menn tækju upp hagsmunaskráningu á Alþingi jafnvel tvisvar á ári og áminntu þingmenn um að svona stæði skráning hagsmuna hjá viðkomandi þingmanni eða hjá viðkomandi ráðherra eins og sakir standa. (Forseti hringir.) Ef það er ekki gert þá sýnist mér í framkvæmdinni að það kunni að gleymast þegar breyting verður á hagsmunum einstakra manna að uppfæra reglurnar. (Forseti hringir.) Við ættum að taka það upp sem fasta reglu hér í þinginu að áminna menn um þetta.