144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

afnám verðtryggingar.

[15:33]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég skal ekki segja hvort fólk er almennt furðu lostið en hv. þingmaður er ekki að gera neitt til að hjálpa til við að koma réttum skilaboðum til fólks, svo mikið er víst. (ÁPÁ: Sjálfstæðismenn …) Hann nýtir hér hvert tækifæri til að snúa út úr og spyr hér mig, virðulegur forseti, út í skoðanir annarra, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra. Hæstv. félagsmálaráðherra þurfti að kalla hér fram í til að leiðrétta hv. þingmann sem fór með rangt mál um það sem hún hefði sagt.

Hvað varðar hins vegar yfirlýsingu sem vísað er til hjá hæstv. fjármálaráðherra um að þetta stjórnarsamstarf sé ekki um að útrýma verðtryggingunni — er mönnum ekki frjálst að skilgreina það hverjar þeir telja megináherslur stjórnarsamstarfsins, um hvað það snúist? Ég held að menn séu þó almennt sammála um að stjórnarsamstarfið snúist fyrst og fremst um að bæta kjör almennings í landinu. Það hefur svo sannarlega gengið vel til þessa. Liður í því að bæta kjör í landinu og bæta fjármálakerfið á Íslandi er að fást við verðtrygginguna enda liggur það fyrir samþykkt af hálfu ríkisstjórnarinnar um næstu aðgerðir í þeim efnum. Hv. þingmaður getur kynnt sér þetta. Það hefur legið fyrir í um það bil ár, meira en ár held ég meira að segja, með hvaða hætti ríkisstjórnin muni standa að þessu þannig að þessar endalausu tilraunir hv. þingmanns til að búa til einhvern rugling og ágreining sem enginn er eru ástæðulausar og ekki til annars fallnar en að gera fólk einmitt furðu lostið.