144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

þjónustusamningur við Samtökin ´78.

711. mál
[15:52]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Telur ráðherra, með tilliti til hins mikla hlutverks sem Samtökin ´78 gegna við fræðslu um málefni hinsegin Íslendinga og þjónustu samtakanna við þessa borgara, að ríkinu beri að gera þjónustusamning við samtökin sem tryggi þessu mikilvæga framlagi fjárhagslegan grundvöll?“

Hvað varðar okkur í velferðarráðuneytinu auglýsum við eftir umsóknum frá félagasamtökum til verkefna er falla undir verkefnasvið ráðuneytisins á sviði félagsmála. Styrkirnir eru veittir samkvæmt ákvörðun á fjárlögum hverju sinni. Í ráðuneytinu eru til staðar fastmótaðar reglur er varða úthlutun þessara styrkja en samkvæmt reglunum er styrkjum úthlutað í afmörkuð verkefni til eins árs í senn og eiga verkefnin að miða að því að veita einstaklingum eða hópum stuðning, fræðslu og ráðgjöf. Starfshópur er skipaður af ráðherra sem metur umsóknirnar og gerir tillögur um úthlutun styrkjanna. Þau félagasamtök sem fá styrk þurfa í lok verkefnisins að skila ráðuneytinu upplýsingum um árangur og niðurstöðu verkefnisins. Í síðustu úthlutun bárust 69 umsóknir en alls fengu 46 félagasamtök styrk að fjárhæð 167 millj. kr. Um er að ræða styrki til verkefna til eins eða tveggja ára. Stefnt er að því að eingöngu verði veittir styrkir til félagasamtaka til eins árs í senn en félagasamtök geti sótt um árlega. Hægt er að sækja um í fleiri en eitt verkefni. Þetta fyrirkomulag er nýlegt en hefur gefið ágætisraun og er með þessum reglum reynt að tryggja að félagasamtök sitji við sama borð þegar kemur að styrkveitingum frá ríkinu, að ferlið sé opið og gagnsætt og eftirfylgni sé með verkefnum sem hljóta styrki frá hinu opinbera.

Sé litið sérstaklega til Samtakanna ´78 og þess mikilvæga hlutverks sem þau gegna í samfélaginu, bæði sem fræðsluaðili og hagsmuna- og baráttusamtök hinsegin fólks, er óhætt að segja að starfsemi þeirra falli vel að þeim áherslum sem birtast í reglum ráðuneytisins um úthlutun styrkja á safnliðum fjárlaga, þ.e. fræðsla og ráðgjöf til einstaklinga og hópa.

Samtökin ´78 hafa sótt um og fengið styrki á þessum lið. Árið 2012 og 2013 fengu Samtökin ´78 styrk að fjárhæð 4,7 millj. kr. og á síðasta ári fengu samtökin 6 millj. kr. styrk til tveggja verkefna, annars vegar 4 millj. kr. styrk til fræðslu og hins vegar 2 millj. kr. styrk í verkefnið „Stattu með!“ en í því verkefni er unnið að fræðsluefni fyrir grunn- og framhaldsskóla. Það er því mitt mat að við eigum ekki að gera þjónustusamninga við einstök félagasamtök um fræðslu heldur viðhalda því fyrirkomulagi sem er til staðar núna þar sem félagasamtök sækja um styrki í samræmi við reglurnar og þar með er starfsemi þeirra tryggður fjárhagslegur grundvöllur tímabundið.