144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

þjónustusamningur við Samtökin ´78.

711. mál
[15:55]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir kosningarnar 2013 héldu Samtökin ´78 fund með frambjóðendum frá flokkunum. Þar var mikið rætt, auðvitað voru samtökin að kynna starfsemi sína eftir því sem þörf þótti og leita eftir sjónarmiðum flokkanna. Ég ætla ekki að herma upp á hæstv. ráðherra sem var á fundinum hvað hún hafi sagt því að það man ég hreinlega ekki en ég man að það var mikil samstaða um það meðal frambjóðenda að það væri mikilvægt að gera þjónustusamning við samtök eins og Samtökin ´78. Við erum nýbúin að sjá haft eftir einum ástsælasta tónlistarmanni Íslands að það hafi skipt sköpum fyrir hann að geta bankað upp á hjá Samtökunum ´78. Hann er bara ein saga, ég held að fyrir langflesta hinsegin Íslendinga hér á landi leiki samtökin lykilhlutverk (Forseti hringir.) og að fræðsluhlutverk þeirra sé mjög mikilvægt. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hún muni ekki eftir þessum fundi. Við vorum öll sammála um að þjónustusamningur væri mikilvægur fyrir samtökin.