144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

þjónustusamningur við Samtökin ´78.

711. mál
[15:59]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu. Mig langar að koma inn í hana með tilliti til samþættingar ráðuneyta vegna þess að ég held að það sé þarft að velferðarráðuneytið, bæði heilbrigðisgeirinn og velferðargeirinn svo og menntageirinn, taki höndum saman og efli fræðslu um hinsegin fólk, og það á ekki eingöngu við um homma og lesbíur heldur allar tegundir hinsegin fólks sem við þekkjum í dag, til að hægt sé að mæta einstaklingum sem á einhverri stundu í lífi sínu, ungir sem unglingar, verða sér áskynja um annars konar kynvitund en normalt norm segir til um og þá er ekkert innan skólans sem tekur við til að styðja við bakið og fræða eða ræða. Í þessu sambandi hvet ég til samþættingar þriggja ráðuneyta til að koma fræðsluefni áleiðis inn í leikskólann og grunnskólann.