144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

þjónustusamningur við Samtökin ´78.

711. mál
[16:03]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það er búið að vera gríðarlega ánægjulegt að fylgjast með því á síðustu árum hvernig samfélag okkar hefur þróast í áttina til mikils umburðarlyndis á mjög mörgum sviðum, ekki bara gagnvart skjólstæðingum Samtakanna ´78 heldur mörgum öðrum hópum sem áður áttu kannski undir högg að sækja. Það er mikið gleðiefni og nokkuð sem okkur ber að taka utan um og ýta undir. Þess vegna finnst mér í fyrirspurn hv. þingmanns felast góð hugmynd sem mér finnst að við ættum að íhuga vandlega, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem við höfum séð síðustu daga tengda við ákveðna útvarpsstöð og kannski samfélagsmiðla. Það sýnir okkur að það eru enn nokkrir þjóðfélagshópar sem þarfnast vissulega betri fræðslu í þessum efnum og þess vegna er full ástæða til að taka þessa fyrirspurn alvarlega og þá hugmynd sem í henni felst.