144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

sérstakt framlag til húsaleigubóta.

719. mál
[16:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Með fjárlögum yfirstandandi árs ákvað ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að hækka matarskatt úr 7% í 11%. Það voru boðaðar mótvægisaðgerðir út af þessari skattahækkun og ein þeirra aðgerða var hækkun húsaleigubóta. Í tillögum á milli umræðna kom viðbótarframlag inn í jöfnunarsjóð til greiðslu húsaleigubóta upp á 400 millj. kr. Í skýringartexta með þessari viðbót segir, með leyfi forseta:

„Lagt er til að veitt verði 400 millj. kr. framlag vegna aukinna húsaleigubóta. Unnið hefur verið að uppbyggingu á nýju húsnæðisbótakerfi sem ætlað er að leysa af hólmi núverandi vaxta- og húsaleigubótakerfi. Með hinu nýja kerfi er stefnt að því að jafna stöðu leigjenda við stöðu eigenda íbúðarhúsnæðis sem fá greiddar vaxtabætur þannig að stuðningur hins opinbera taki mið af fjölskyldustærð í stað búsetuforms. Þetta framlag er áfangi í því að sameina framangreind styrktarkerfi með því að auka stuðning við leigjendur.“

Þetta er framhald á stefnu fyrri ríkisstjórnar sem hækkaði einmitt húsaleigubæturnar til að byrja að aðlaga kerfin hvort að öðru, vaxtabótakerfið og húsaleigubótakerfið. Það hefur hins vegar vakið athygli mína að ég hef ekki getað séð að reglum um húsaleigubætur hafi verið breytt þannig að tekjuviðmiðið hafi verið hækkað eða bæturnar hækkaðar þannig að það vekur upp þá spurningu hvort reglunum hafi ekki verið breytt þrátt fyrir þetta viðbótarframlag. Ef þeim hefur ekki verið breytt, hvernig hefur þá þessu framlagi í jöfnunarsjóð verið ráðstafað? Er verið að nýta þessar 400 milljónir sem eru mótvægisaðgerð við hækkun matarskattsins og leið til að framfylgja húsnæðisstefnu stjórnvalda eða er það kannski þannig að það vantaði 400 milljónir inn í málaflokkinn sem hefðu að öllu jöfnu átt að koma inn? Eða er þetta ef til vill engin mótvægisaðgerð?

Þetta eru spurningar sem vakna. Það getur ekki verið að kerfið hafi verið gert ríkulegra ef reglunum hefur ekki verið breytt. Það er þetta sem ég vildi spyrja ráðherra út í. Ef reglunum hefur verið breytt, hvar er hægt að nálgast þær? Ekki fann ég þær á heimasíðu ráðuneytisins.