144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

sérstakt framlag til húsaleigubóta.

719. mál
[16:15]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurn hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur og áhuga hennar á þessu máli. Hv. þingmaður spyr hvernig sérstöku framlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna húsaleigubóta hafi verið ráðstafað og hvort reglum um húsaleigubætur hafi verið breytt til að tryggja nýtingu fjármunanna. Því er til að svara, líkt og hv. þingmaður veit ágætlega, að ég hef í hyggju að leggja fram á yfirstandandi þingi frumvarp til laga um húsnæðisbætur sem ætlaðar eru leigjendum. Fyrr á árinu stóðu vonir til að unnt yrði að koma hinu nýja kerfi húsnæðisbóta til framkvæmda um mitt þetta ár og ákvað ég því að geyma framlagið sem vísað er til í fyrirspurn hv. þingmanns til að unnt yrði að nota það óskipt til fjármögnunar á nýju húsnæðisbótakerfi. Útlit er hins vegar fyrir að þær fyrirætlanir mínar gangi ekki eftir þannig að nýtt kerfi taki ekki gildi fyrr en um næstkomandi áramót. Ég er því þessa dagana að meta hvort nýta eigi þetta framlag til að hækka húsaleigubætur um mitt árið eða hvort ég eigi að óska eftir því að framlagið gangi óskipt inn í nýtt kerfi húsnæðisbóta sem mundi óneitanlega hjálpa til við að hraða innleiðingu þess þrátt fyrir að það mundi nýtast á nýju fjárlagaári.

Afstaða mín mun að öllum líkindum ráðast á mati fjármála- og efnahagsráðuneytisins á þeim kostnaði sem ríkissjóður þarf að bera vegna hins nýja kerfis, en frumvarpið er þar í kostnaðarmati. Ég vona svo sannarlega að það mat liggi fyrir á næstunni svo ég geti tekið endanlega ákvörðun um hvernig þessu framlagi verði varið.