144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

sérstakt framlag til húsaleigubóta.

719. mál
[16:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég hef nokkurt dálæti á þeirri stefnu sem kemur fram í orðum hæstv. ráðherra varðandi húsnæðismál. Ég hef lýst því mörgum sinnum yfir að ég bíð eftir því að hún komi með sín meginmál hingað inn í þingið vegna þess að mér finnst allt benda til þess að margt af því falli að mínum hugmyndum. Mér bregður svolítið við að heyra að hvert málið á fætur öðru sem hún hefur rætt svo fjálglega um verður innlyksa í ríkisstjórninni. Núna segir hæstv. ráðherra að hún reikni með að áform hennar um að nýta þessar 400 milljónir sem hér var verið að ræða um áðan inn í nýtt húsnæðisbótakerfi gangi ekki upp á þessu þingi.

Mig langar til að spyrja hana: Af hverju gengur það ekki upp? Er þetta eitt af þeim málum sem hæstv. ráðherrar úr hinum stjórnarflokknum taka í gíslingu? Má ég líka nota tækifærið til að spyrja hana: Hvenær telur hún að hinar ágætu orkubitasendingar hennar til fjármálaráðuneytisins beri árangur (Forseti hringir.) með þeim hætti að það verði unnt að afgreiða þau tvö mál sem þar eru læst (Forseti hringir.) inni af hálfu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra?