144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:42]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kemur inn á stórar spurningar. Í fyrsta lagi talaði hv. þingmaður um S-merktu lyfin og áætlun þeirra í fyrra andsvari. Auðvitað er það þekkt að við eigum í erfiðleikum með að áætla útgjöldin í lyfin. Sá liður hefur farið fram úr aftur og aftur og þetta er erfitt að áætla.

Mig langar að nefna óvissuþættina. Þeir eru svo margir í áætluninni og það er talað um að kjarasamningarnir séu mesti óvissuþátturinn. Það er ekki talað um afnám gjaldeyrishafta sem mesta óvissuþáttinn heldur bara nefnt að stöðugleiki sé mikilvægur fyrir undirbúning aðgerða til afnáms gjaldeyrishafta. Þar með er verið að rökstyðja það að það sé mikilvægt að kjarasamningarnir stuðli ekki að óstöðugleika.

Síðan eru ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar B- og A-deildar og á bak við reiknireglur til framtíðar er líka óvissa. Hv. þingmaður benti einmitt á að ekki væri tekið á vanda Íbúðalánasjóðs í áætluninni sem er umhugsunarefni þar sem hægt hefði verið að sjá fyrir og slá á vandann þar. Síðan eru vaxtakjör á innlendum og erlendum mörkuðum og tekjutap eða mótvægisaðgerðir vegna efnahagslegra áfalla ef það verður náttúruvá, aflabrestur eða eitthvað slíkt sem er skiljanlegra að ekki sé tekið á.

Varðandi óreglulegu liðina (Gripið fram í.) get ég skilið að þeir séu teknir frá einmitt til að meta áætlunina. Þeir eru teknir frá (Forseti hringir.) og þá fáum við sambærilegar tölur til að meta aftur í tímann. Þess vegna skil ég að óreglulegu liðirnir séu teknir frá en í þeim eru vissulega stórar upphæðir.