144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir að það er há upphæð sem tekin er frá í óreglulega liði. Eins og ég sagði áðan hef ég þó skilning á því að þessir liðir séu teknir til hliðar. Mér finnst mikilvægt að það sé sýndur samanburður með og án óreglulegra liða. Þetta eru liðir sem geta rokkað eftir aðstæðum þó að við getum sagt: Já, það er alltaf eitthvert atvinnuleysi, jöfnunarsjóður helst í hendur við tekjur ríkissjóðs o.s.frv. Án þess að ég fari að verja ríkisfjármálaáætlunina sérstaklega (Gripið fram í.) og framsetninguna finnst mér þetta ekki stóra málið ef við fáum að sjá samanburðinn þannig að við getum gert okkur grein fyrir stöðunni og breytingum á milli ára án óreglulegra liða. Við getum einnig borið saman breytingar á milli ára með þessum liðum.

Það er svolítið erfitt að fara að breyta því núna ef við viljum skoða þróunina, hvernig þróunin er bæði á tekju- og gjaldahlið, ef við förum að breyta þessum lista og setja inn atriði eitt árið og taka út annað árið. Í sjálfu sér mundi það kannski gera okkur erfiðara að sinna eftirlitshlutverki okkar. Ég sé þetta svona en auðvitað er ekki nema sjálfsagt að skoða þessi mál og athuga hvernig best sé að haga þeim með það fyrir augum að við fáum sem best (Forseti hringir.) séð hvernig hlutirnir eru í raun og hvernig við getum borið þá saman milli ára.