144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er mjög ánægð með þær breytingar sem gerðar voru á tekjuskattskerfinu á síðasta kjörtímabili þar sem tekið var upp þrepaskipt kerfi. Eins og hv. þingmaður kom inn á sjáum við með þrepaskiptu skattkerfi til þess að kerfið skili tekjum í ríkissjóð en stuðli jafnframt að auknum jöfnuði í samfélaginu sem er vissulega eftirsóknarverður.

Stefnumál þessarar ríkisstjórnar er að einfalda tekjuskattskerfið. Alveg eins og hv. þingmaður benti þó á var einmitt talað um að neysluskattur væri ekki gott jöfnunartæki þegar verið var að færa rök fyrir virðisaukaskattsbreytingunni. Eins og hv. þingmaður kom inn á gæti maður ætlað, fyrst þau rök voru notuð um breytingar á neysluskattskerfinu, að halda ætti þrepaskiptu tekjuskattskerfi. Það stuðlar sannarlega að jöfnuði.

Eins og ég sagði í ræðu minni taka samt svona stefnumál ekki mikið rými í ríkisfjármálaáætluninni. Til dæmis er ekki slegið á hvað þessi einföldun á skattkerfinu muni kosta sérstaklega og ekki heldur hverjir muni helst njóta þegar milliþrepið verður tekið í burtu, hvað þetta þýðir fyrir tekjur ríkissjóðs og hverjir muni helst njóta. Það hefði þurft að vera með í áætluninni. Tollar, tryggingagjöld lækkuð í áföngum, skattlagning á ökutæki og breytingar á virðisaukaskatti í áfengissölu og fleira er tínt til (Forseti hringir.) og slumpað á að á árinu 2016 verði þetta 2 milljarðar í allt í minni tekjum til ríkissjóðs og mest 6 milljarðar 2019. Það væri áhugavert að fá nánari greiningu á þessu.