144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:04]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún ræddi mikið um einmitt einkaneyslu og samneyslu. Samneyslan er nú að dragast saman, fer að minnsta kosti minnkandi, og ef þetta gengur eftir er hún í sögulegu samhengi lítil. Auðvitað skiptir máli hvað gerist á launamarkaði og það er akkúrat það sem mig langar að velta hér upp. Það eru varkárar og íhaldssamar launaforsendur í áætluninni og tæplega í takt við þær kröfur sem við sjáum núna á markaðnum þannig að mín skoðun er sú, og ég spyr hv. þingmann hvort hún deili henni með mér, að áætlunin innihaldi svo marga óvissuþætti og að það sé óraunhæft að gera ekki ráð fyrir meiri launahækkunum almennt en gert er í þessari þingsályktunartillögu. Það er eitt.

Síðan langar mig að velta upp varðandi fjárfestingar og viðhald. Við höfum ekki enn fengið að sjá samgönguáætlun, það er einn óvissuþátturinn. Það virðist ekki vera gert ráð fyrir fjárfestingu og viðhaldi eða neinu slíku hér, það virðist bara ekki horft til svona þarfa sem liggja í augum uppi. Þegar verið er að leggja fram stefnumarkandi plagg, af því að það var það sem hæstv. ráðherra sagði, að þetta væri stefnumarkandi plagg, þegar svona stórir þættir eru utan sviga, maður getur talað um það þegar ekki er gert ráð fyrir þeim eins og þessum fjárfestingum og viðhaldi, og við vitum að svona launaforsendur standast ekki, hver er þá stefnan? Hver er stefnumörkunin? Þess vegna spyr ég þingmanninn hvort hún sé mér sammála um að þetta (Forseti hringir.) plagg, eins ágætt og það er að það komi fram, sé kannski haldlítið þegar á reynir.