144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:09]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég tek fram að sérstaklega þegar talað er um stefnumarkandi plagg finnst manni að það eigi að vera að minnsta kosti eins mikið og mögulegt er kostur á að setja fram raunhæfar forsendur. Það liggur alveg fyrir að mínu viti að það er ekki gert í þessu plaggi. Þetta er ekki alslæmt plagg, alls ekki, en það er svo mikil lausung í því að ég held að það taki ekki litlum breytingum heldur miklum breytingum.

Mig langar aðeins að koma inn á ferðaþjónustuna. Það kemur fram í þingsályktunartillögunni að framleiðni ferðaþjónustunnar sé ekki mikil og við vitum það þó að hún hafi vaxið langmest af öllum þeim greinum sem hér eru. Það vantar að auka menntunarstig og framleiðnina. Það hefur komið fram í umfjöllun um þetta að ýmislegt bendi til þess að greinin þurfi ekki lengur skattameðgjöf, hún sé í rauninni undirskattlögð. Til dæmis er ekki tekið á því í þessari ríkisfjármálaáætlun að gistingin fari upp í efra þrepið og það gæti skipt 5 milljörðum ef hún færi upp í 24% ef við horfum meira að segja til útreikninga 2012. Af því að hv. þingmaður kom inn á hvað það væri sem ríkisstjórnin hefði afsalað sér spyr ég hana hvort hún sé því sammála að ferðaþjónustan þurfi ekki þessa meðgjöf lengur og hvort hún telji að hún ætti að fara upp í efra þrepið. Já, það er (Forseti hringir.) helst það því að þá þarf það (Forseti hringir.) væntanlega að vera kynnt á góðum tíma. Við þekkjum þá umræðu að við getum ekki borið það allt saman með stuttum fyrirvara.