144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst vekja máls á því að það blasir við þegar horft er á þessa ríkisfjármálaáætlun á hversu viðkvæmum stað við erum nú í efnahagsbatanum, hversu miklum árangri hefur verið náð á síðustu árum og hversu góðan grunn síðasta ríkisstjórn hefur lagt fyrir ríkisreksturinn þessi árin, en hversu viðkvæmur þessi efnahagsbati er, hversu miklar hættur eru fram undan og á hversu þunnum ís ríkisfjármálaáætlunin er byggð til næstu ára. Hún er byggð á því til dæmis að kaupmáttaraukning opinberra starfsmanna verði að hámarki 2% umfram verðbólgu. Á síðasta ári hefur fjármálaráðherra skrifað undir fjöldann allan af kjarasamningum um miklu meiri kauphækkanir en því nemur. Nú standa yfir verkföll Bandalags háskólamanna þar sem gerð er krafa um mun ríkari kauphækkanir en hér er um að ræða og því vandséð hvernig þessari forsendu einni verður náð.

Í annan stað blasir við hversu viðkvæmur grunnur efnahagsbatans er þegar maður horfir á nokkrar lykilstærðir. Ég nefni umfjöllun um framleiðni á blaðsíðum 12–13 þar sem birtist auðvitað hin dapurlega staðreynd eftirhrunsbatans, sú að þessi þjóð í höftum er að byggja efnahagslegan uppgang á óþægilega veikum stoðum. Framleiðniaukningin er að hverfa frá áralangri leitni upp á við og þar munar mest um að sá stóri hluti efnahagsbatans sem felst í auknum fjölda ferðamanna hefur neikvæð áhrif á framleiðnina. Framleiðni er ekki nægjanlega mikil í ferðaþjónustunni. Það er brýnt að stuðla að aukinni framleiðni og aukinni verðmætasköpun í þeirri grein, styðja greinina í framþróun og uppbyggingu, auðvelda henni að hækka verð en ekki þvælast fyrir henni eins og ríkisstjórnin hefur gert.

Það er líka áberandi í þessu samhengi að heildarskuldir ríkissjóðs verða nær óbreyttar á næstu árum. Það er ótrúlegt að lesa skuldakaflann og umfjöllunina um skuldir frá og með bls. 19 og sérstaklega á bls. 21–24 þar sem í fyrsta lagi birtist mynd sem sýnir að gert er ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs lækki á næstu árum í svörtu línunni sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Allir taka hins vegar eftir að skuldastabbinn er óbreyttur. Það er bara vegna þess að landsframleiðslan eykst sem eitthvað horfir til þess að skuldahlutfall þjóðarinnar batni. Þannig á hlutfall heildarskulda ríkissjóðs af vergri landsframleiðslu að fara á næstu árum úr 58,8% í 49,4%.

Þegar horft er á umfjöllunina að öðru leyti um skuldaþróunina á bls. 21 og áfram hangir allur ávinningur í lækkun skulda ríkissjóðs á því að geta selt 30% í Landsbankanum. Forsendur þess eru mjög veikburða við núverandi aðstæður. Ekkert liggur fyrir um afnám gjaldeyrishafta nema misvísandi yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra. Enginn veit í reynd hvaða stefnu er verið að marka um umgjörð þessara mála að öðru leyti og þá er það brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar að koma inn með tvö frumvörp, annað um að kollvarpa yfirstjórn Seðlabankans og afnema faglega yfirstjórn hans með þremur seðlabankastjórum til að tryggja flokksleg ítök núverandi stjórnarflokka í yfirstjórn Seðlabankans og hitt frumvarpið um að leggja niður Bankasýslu ríkisins og leggja þar með af þann faglega feril um sölu eignarhluta í bönkum sem áður hafði verið lagt upp með.

Þetta er skelfilegt innlegg í nokkrar hugmyndir um afnám gjaldeyrishafta. Þessi frumvörp verða ekki til þess að auðvelda slíkt afnám. Sala á 30% hlut ríkisins í Landsbankanum er fugl í skógi við þessar aðstæður.

Það er líka athyglisvert að lesa umfjöllunina á bls. 22 um vaxtakostnað Íslands og myndina á bls. 23 um vaxtakostnað Íslands í samanburði við önnur lönd í Evrópu frá árinu 2013. Ísland ber mestan vaxtakostnað, 11% af vergri landsframleiðslu, meiri vaxtakostnað en nokkur Evrópusambandsþjóð. Þar segir á bls. 22, með leyfi hæstv. forseta:

„Vaxtakostnaður hins opinbera á Íslandi er meiri en allra aðildarríkja Evrópusambandsins hvort sem er sem hlutfall af heildarútgjöldum eða sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Sem hlutfall af heildarútgjöldum er vaxtakostnaðurinn hér á landi u.þ.b. tvöfalt hærri en meðaltal Evrópusambandsríkjanna þótt flest þessara ríkja hafi lengi verið talin standa fyrir allt of skuldsettri ríkisstarfsemi, eða um 11% á móti 5,6% að meðaltali [hjá Evrópusambandinu] árið 2013. Sem dæmi má taka að þetta hlutfall var 6,7% í Grikklandi.“ —11% hér.

Virðulegi forseti. Í greinargerð hæstv. fjármálaráðherra kemur fram að þó að skuldir hins opinbera á Íslandi séu talsvert lægri en í þeim Evrópusambandsríkjum sem verst standa, um 90% af vergri landsframleiðslu hér á móti til dæmis 175% í Grikklandi, 128% í Portúgal, 128% á Ítalíu og 123% á Írlandi, borgar Ísland tvöfalt meira af vergri landsframleiðslu í vaxtagjöld en Grikkir. Ekkert lýsir betur þeim gríðarlega mun sem er á vaxtakjörum Íslands og evruríkjanna á alþjóðlegum mörkuðum. Það er dapurlegt að sjá hér staðfestingu hæstv. fjármálaráðherra á því að herkostnaðurinn af íslensku krónunni sé slíkur að við berum tvöfalt meiri kostnað af helmingi minni skuldum en Grikkir. Við berum tvöfalt meiri kostnað en Grikkir af helmingi minni skuldum. Ég hlýt að kalla eftir því að einhverjir þingmenn stjórnarliðsins komi hér upp og flytji enn einu sinni sönginn um sveigjanleika hinnar íslensku krónu og ávinninginn sem þjóðin hefur af hinni íslensku krónu þegar fyrir liggur að við gætum náð að greiða niður skuldir ríkisins miklu auðveldar ef við nytum lægri vaxta á opinberar skuldir eins og við hefðum með aðild að evrópska myntbandalaginu.

Fyrir vikið er í þessari áætlun gert ráð fyrir meiri afgangi á ríkisútgjöldum og þar af leiðandi meiri samdrætti í samneyslu. Við munum þurfa að sætta okkur við minni opinbera þjónustu til að standa undir að borga vaxtareikninginn sem fylgir hinni íslensku krónu. Það blasir við. Við munum þurfa að ganga harðar fram í niðurskurði opinberra útgjalda en Evrópuríkin vegna þessa mikla munar á vaxtagjöldunum.

Virðulegi forseti. Því miður hef ég ekki tíma til að fjalla um alla þætti þessarar ríkisfjármálaáætlunar. Það er margt eftir sem ég hef ekki náð að nefna. Eitt þó að lokum, á bls. 32 er fjallað um áhrif breytinga á skattkerfinu á tekjuáætlun áranna 2016–2019. Það er svolítið svakaleg lesning, virðulegi forseti. Lækkun tryggingagjalds mun lækka tekjur um 2,8 milljarða miðað við árið 2014. Það er mjög mikilvægt og mikið þakkarefni og mjög ánægjulegt að með þeim hætti sé dregið úr álögum á laun, en sérstakur persónuafsláttur vegna skuldaleiðréttingarinnar vegur 5,7 milljarða, (Forseti hringir.) með öðrum orðum meira en tvöfalt það (Forseti hringir.) sem lækkun tryggingagjaldsins vegur í ríkisfjármálaáætlun. Hversu ófókuseruð var ekki þessi skuldaaðgerð? Hversu dýr og óhagkvæm var hún og hversu miklu betur hefði ekki verið hægt að verja þessum peningum í þágu okkar allra?