144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:31]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi vaxtakjör ríkisins almennt og hugmyndina um sameiginlegan gjaldmiðil til að lækka þann kostnað. Ég held að þetta sé þáttur sem hefur algjörlega horfið undir ratsjána í íslenskri stjórnmálaumræðu. Menn hafa bara ekkert rætt þetta. Menn horfa á fréttir frá Grikklandi og gefa sér að þar séu endilega aðstæður sem hafi eitthvert gríðarlegt fordæmisgildi fyrir Ísland. Staðreyndin er hins vegar að vaxtabyrði Grikkja, eins og augljóslega má sjá á opinberum gögnum, er minni en vaxtabyrði Íslendinga sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Munurinn er sá að Ísland býr við góða innviði. Undir forustu jafnaðarmanna bjuggum við á áttunda og níunda áratugnum til skattkerfi sem tryggir að það er hægt að leggja skatt á alla borgara í landinu. Það er bara ekki hægt í Grikklandi. Þar borgar sama fámenna millistéttin alltaf skattana. Forréttindaklíkurnar komast undan því að borga skatta, eins og þær gerðu í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins áratugum saman þegar menn í réttum flokkum gátu borgað skatta með víxlum og losnað við að bera sinn hluta af samneyslunni. Við bundum blessunarlega enda á það í stjórnartíð jafnaðarmanna undir lok níunda og í upphafi tíunda áratugarins.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði um Íbúðalánasjóð. Ég held að þetta sé vanáætlað. Það segir á einum stað fyrr í áætluninni að vaxtamódel sjóðsins sé ekki sjálfbært. Það þýðir á mannamáli að hann muni halda áfram að skila tapi um ókomna tíð að óbreyttu nema það sé hægt að búa til nýtt módel. Ég er sammála hv. þingmanni um að það þarf grundvallarbreytingar þar á. Það þarf að hugsa alveg frá grunni (Forseti hringir.) hvert á að vera hlutverk ríkisins í stuðningi, hvort ríkið á að koma að stuðningi við húsnæðisöflun fólks, sérstaklega fólks sem ekki hefur tekjur til að gera það með öðrum hætti. Það þarf hins vegar að gera það þannig að það skili hámarksárangri.