144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:38]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Eins og ég sagði sé ég þess einmitt ekki merki að það sé staðinn vörður um það brýna framtíðarmál sem bygging þessara hjúkrunarheimila er. Vissulega vitum við að mörg sveitarfélög hafa verið illa stödd og ekki getað tekið þátt í uppbyggingunni en það breytir því ekki að þetta er framtíðarsýn, á að vera það, og þar af leiðandi tel ég að sú afstaða hefði átt að koma skýrar fram hjá ráðherranum.

Það er annað þessu tengt sem mig langar að nefna. Á bls. 36 er reiknað með meiri útgjaldavexti í nokkrum málaflokkum, þar á meðal einmitt með hliðsjón af þessari lýðfræðilegu þróun og innbyggðum kerfislægum vextinum. Það er 3% raunvöxtur í ellilífeyri og S-merktum lyfjum og 2% í lífeyrisskuldbindingum. Ég hef miklar efasemdir um að áætlun S-merktra lyfja standist. Þau hafa hækkað mjög mikið undanfarin ár eins og við þekkjum og hæstv. ráðherra sagði að það væri búið að ná aðeins utan um það, en mér fannst gleymast að taka með að við höfum ekki tekið inn ný S-merkt lyf svo neinu nemi og þess vegna held ég að það sé orðin uppsöfnuð þörf á slíku. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé sammála mér í því.

Ég veit að við teljum bæði að lykilforsenda hagvaxtar sé jöfnuður. Hér finnst mér birtast alveg grímulaus hægri stefna á bls. 34 og 35 varðandi stefnuna í skattamálum þar sem er talað um að fella niður skattþrepin og gera þau að einu. Ég held að við vinstra fólk þurfum að berjast gegn því með kjafti og klóm. Í restina kemur svo varðandi alls konar forsendur um (Forseti hringir.) hlutverk þessarar áætlunar um að standast að bætur almannatrygginga hækki um 1% umfram verðbólgu, að gengið verði óbreytt o.s.frv., að þetta sé stefnumörkun sem stenst ekki.