144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er eins og hv. þm. Willum Þór Þórsson ánægður með ríkisfjármálaáætlun sem tæki. Ég tel mjög gott að hún sé komin fram í fyrsta skipti og að því var unnið eins og hv. þingmaður veit á sínum tíma í fyrri ríkisstjórn. Það skiptir ekki máli hver átti upptökin að því. Hún er gott tæki. Hún gerir okkur kleift að skipuleggja okkur betur inn í framtíðina. En um leið er hún dálítið svona beiskur spegill finnst mér á stefnu sitjandi ríkisstjórnar. Hvert er þá hlutverk okkar sem eru í stjórnarandstöðu? Það er bara hluti af samspili valdþáttanna í stjórnskipan eins og okkar að um leið og við hljótum að fagna því sem jákvætt er þá er partur af aðhaldshlutverki okkar að benda á þá veikleika sem kunna að vera.

Ég finn ýmsa veikleika í þessu ágæta frumvarpi, t.d. þá að á sama tíma og menn draga hlutina mjög jákvætt upp birtast heldur veikar stoðir hér og hvar þegar skyggnst er dýpra. Til dæmis er gengið út frá því að þau átök sem núna eru á vinnumarkaði endi mjög farsællega fyrir ríkissjóð og ég sé að gert er ráð fyrir 2% kaupmáttaraukningu til opinberra starfsmanna. Á sama tíma, alveg eins og kom fram hjá talsmanni stjórnarliðsins áðan, gengur allt mjög vel. Sömuleiðis erum við að fara í eina háskalegustu og vandasömustu aðgerð lýðveldissögunnar, afléttingu gjaldeyrishafta, það skapar mikla óvissu.

Það sem mér finnst merkilegast í þessu er að gert er ráð fyrir nánast engri lækkun skulda. Skuldastabbinn er óbreyttur en hann minnkar hlutfallslega af því að landsframleiðslan eykst. En á sama tíma kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að búið er að afnema skatta sem sennilega eru fast að 35 milljörðum. Ef ég tek frá þá skatta sem ég var sammála að yrðu afnumdir þá (Forseti hringir.) er samt búið að lækka þá um 27 milljarða. (Forseti hringir.) Ég spyr hv. þingmann: Hefði kannski ekki verið vitlegra að halda þeim svolítið lengur og greiða beinlínis niður skuldir ríkissjóðs?