144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:13]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við vonum að allt fari vel og að þessir veikleikar verði aldrei að veruleika. En stóru veikleikarnir eru nokkrir, þeir sem við höfum rætt hérna, í fyrsta lagi hvernig kjarasamningum lyktar. Ríkisstjórnin gefur sér hvernig þeim lyktar, með 2% kaupmáttaraukningu. Hvernig lyktar afnámi gjaldeyrishafta? Þar tel ég að sé að vísu fólginn hugsanlegur ávinningur gagnvart lækkun skulda sem ekki er reiknaður inn í þetta. Salan á hlut ríkisins í Landsbankanum, alveg sama hvaða persónulegu skoðun við kunnum að hafa á því, er í uppnámi vegna þess að annar stjórnarflokkurinn hefur nánast lagst gegn því. Smærri þætti gæti ég nefnt eins og t.d. Landspítalann. Hv. þingmaður nefndi það sérstaklega áðan. Það er ekki gert ráð fyrir að nokkuð verði lagt af hálfu ríkisins til Landspítalans. Hvernig á að fjármagna hann? Ekki nota menn sölu Landsbankans tvisvar. Ég nefni samgönguáætlun. Ég sé ekki að gert sé ráð fyrir neinu rými til þess að auka þar við.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann: Er ekki dálítið skörp og að ég ekki segi æpandi þverstæða á milli þess (Forseti hringir.) að ríkið geri ráð fyrir því að kaupmáttaraukning út úr samningum við opinbera starfsmenn verði (Forseti hringir.) 2% og á sama tíma er framtíðin dregin svona fallega upp?