144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:55]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég er svo sannarlega sammála því sem hv. þingmaður kom hér inn á. Ég er alveg sammála því að það er gott að þessi þingsályktunartillaga kom fram. En það sem segir í þingsköpum, ég skil það sem svo — og nú ætla ég að fá að lesa hér upp:

„Sá ráðherra er fer með fjárreiður ríkisins skal leggja fyrir Alþingi, eigi síðar en 1. apríl ár hvert, tillögu til þingsályktunar um meginskiptingu útgjalda fjárlaga næsta fjárlagaárs (ramma), svo og greinargerð um breytingar á tekjuöflun ríkisins. Með tillögunni skal fylgja áætlun um ríkisfjármál næstu þriggja ára þar á eftir. Tillögunni skal vísa til fjárlaganefndar eftir fyrri umræðu.“

Ég lít svo á að rammar séu um málaflokka. Þess vegna hef ég sagt að mér finnst þetta bara vera hálft plagg. Ég hefði viljað fá rammana þannig að ég geti byrjað að ræða þá hér, þ.e. hvernig þetta skiptist niður á ráðuneytin. Síðan fái það að vinna áfram hér í sumar og svo tökum við ítarlega umræðu næsta haust. Mér finnst við vera að lenda á sama stað næsta haust með það að taka gríðarlega langan tíma í fjárlagaumræðuna í staðinn fyrir að fram hefðu komið drög að slíkum ramma.

Ég er alveg sammála því og hef einmitt rætt það, ég hef miklar áhyggjur af þeim óvissuþáttum sem hér eru og þetta eru mjög veikar stoðir. Ég held að þessu plaggi verði algerlega umbylt. Ég held að það standi ekki steinn yfir steini hér af því að það er ekkert útfært, höftin eru ekki útfærð, hvað gerist við losun hafta. Launaforsendurnar eru algerlega óraunhæfar, við vitum það. Engar nýframkvæmdir í samgöngum, samgönguáætlun er ekki komin fram, það er ekki gert ráð fyrir henni. Þetta er mjög óeðlilegt og hvað þá með Landspítalann eins og við höfum komið inn á áður. Þess vegna finnst mér þetta ekki vera hið stefnumarkandi plagg sem ríkisstjórnin stærir sig af að leggja fram.