144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála því sem hv. þingmaður sagði, hún lýsti hér ákveðnum ferli sem hún hefði gjarnan viljað að væri fylgt í þessu máli. Ef honum væri fylgt mundi plaggið vísast verða betra en það er núna en það er líka annar ávinningur af því að fara þá leið. Hann er sá að þingið fær meiri völd og það skiptir miklu máli. Kannski má segja að svona áætlun, sem er eins konar vísir að fjárlögum til fjögurra ára ásamt fjárlögum hvers árs séu sterkustu stýritækin sem er hægt að hafa uppi til að hafa áhrif á gang samfélagsins. Við höfum verið sammála því, að því er mér hefur heyrst, flestir þingflokkar, bak bankahruninu að færa ætti aukin völd til þingsins. Mér hefur fundist það hafa tekist vel með ýmsu móti. Ég bendi til dæmis á að hér er komin sérstök nefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem er farin að hafa áhrif og þetta skiptir allt saman máli.

Ég er þeirrar skoðunar eigi að síður að það sé jákvætt að ríkisstjórnin hefur stigið það skref að leggja fram svona áætlun. Það má kannski segja að fall sé fararheill um leið og ég er sammála hv. þingmanni um það að þessu plaggi verður alveg örugglega umbylt, og ekki bara vegna þrýstings frá stjórnarandstöðunni, vegna þess að ég á nú eftir að sjá hv. þingmenn stjórnarliðsins samþykkja margt sem þarna er að finna. En alla vega, þetta er fyrsta skrefið þannig að ég er reiðubúinn til að taka þessu af nokkru umburðarlyndi hjá hæstv. ríkisstjórn, hún er að marka nýjan farveg fyrir mál af þessu tagi. Það breytir ekki hinu að það er okkar hlutverk sem hér sitjum, ekki síst í stjórnarandstöðunni, að benda á veikleika vegna þess að af þeim er hægt að læra. Og af því að við erum stödd í miðri kjaradeilu, sem er að bresta á með sívaxandi þunga á degi hverjum, hvernig heldur hv. þingmaður að það virki á opinbera starfsmenn þegar ríkisstjórn, sem er nýbúin að gera mikla og góða samninga við lækna og kennara, dregur upp plagg eins og þetta sem gerir ráð fyrir því að aðrir opinberir starfsmenn fái 2% kaupmáttarhækkanir?