144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór yfir óvissuþætti og mig langar svolítið að halda áfram með það mál vegna þess að það eru stórir óvissuþættir tíndir til í ríkisfjármálaáætluninni. Efst á listanum á bls. 24 er talað um kjarasamninga og ef þeir verði ekki í lagi geti þeir haft áhrif á verðbólgu, gengi krónunnar, vaxtastig, samkeppnisstöðu atvinnugreina, viðskiptajöfnuð o.fl., þannig að það eru höfð uppi mikil varnaðarorð gagnvart kjarasamningum. Hins vegar er ekki minnst á afnám hafta, ef ég man rétt, nema ofarlega á bls. 5 þar sem er rætt um kjaramál. Þá er aftur verið að segja: Við skulum passa okkur á því að gera ekki kjarasamninga sem gætu ógnað stöðugleikanum vegna þess að þá lendum við í vandræðum með afnám hafta.

Þá er það þetta stóra mál sem hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að sé liður í eða einn áfangi í afnámi hafta, að setja á stöðugleikaskatt og af honum muni hundruð milljarða koma í ríkissjóð. Að vísu hefur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagt að afnám hafta sé flókið og margþætt og að stöðugleikaskatturinn sé ekki til tekjuöflunar heldur til að stuðla að stöðugleika, en í öllu falli: Finnst hv. þingmanni ekki undarlegt að í ríkisfjármálaáætlun til næstu fjögurra ára sé ekki tekið mið af afnámi hafta og afleiðingum þess til góðs eða ills fyrir ríkisfjármálin?