144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:04]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, svo sannarlega er ég sammála því. Á bls. 10 er örlítil umfjöllun um losun hafta sem er eiginlega svolítið „bla bla bla“, það er eiginlega bara þannig. Það er talað um að leiðarljósið sé að við lendum ekki að nýju í greiðslujafnaðarvanda, áhættuþættir séu aflandskrónur, við bætist útflæði vegna samningsbundinnar greiðslna af skuldbindingum innlendra aðila í erlendri mynt og vandinn við losun hafta felist í því að fjármagn gæti leitað út úr hagkerfinu o.s.frv. Það er í rauninni ekkert annað en það sem við kannski spjöllum um okkar á milli eða eitthvað slíkt, það er ekkert tekið fram hvað gerist eða hvernig menn sjá þetta fyrir sér, það eru engar sviðsmyndir settar upp. Ég get vel skilið að það geti verið erfitt að setja þetta fram. En neðst í þessum kafla, 2.2.1., um losun hafta, segir, með leyfi forseta:

„Gerð er grein fyrir árangri við undirbúning að losun hafta í greinargerð ráðherra sem birt er tvisvar á ári, nú síðast 18. mars 2015.“

Við höfum rætt töluvert um losun hafta og upplýsingaflæði hér á milli og hvernig því hefur verið háttað — eða ekki háttað, og í ljósi þess að við vitum að þetta stendur og fellur með losun hafta er mjög skrýtið hvað það fær lítið vægi hér. Og ég segi og er búin að segja það í dag að það er auðvitað afskaplega sérstakt að gera ekki ráð fyrir hærri launaáætlunum. Kannski er eiginlega verið að misbjóða fólki sem er núna í kjarabaráttu að stilla þessu upp þannig að ef fólk ætli að fara fram á meira en það sem hér er lagt til, sem er auðvitað algert lágmark, fari allt fjandans til og hafi m.a. áhrif á hvernig framvindan verði við losun hafta.