144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmenn hafa í umræðunni í dag og eins fyrir helgi fagnað því að þessi stefna sé komin fram, það sé mjög mikilvægt að ræða stefnuna og fá að vita hver séu helstu málin inn í kjörtímabilið, líka til að maður sjái hvað það er sem stjórnarflokkarnir eru sammála um að gera. Við lentum nú í því að ræða fjárlagafrumvarp sem þingflokkur Framsóknarflokks afgreiddi frá sér með fyrirvara. Þar með vissi maður ekki alveg hvernig ætti að taka frumvarpinu því það var greinilega ekki eining um það og ljóst að miklar breytingar yrðu á því gerðar. Í þessari stefnu er strax kominn fram ágreiningur á milli stjórnarflokkanna, og stærsta málið þar er kannski sala á 30% hlut í Landsbankanum.

Hv. þingmaður situr í fjárlaganefnd og þar er verið að vinna með frumvarp um opinber fjármál. Þar er gert ráð fyrir að ríkisfjármálastefna sé rædd og samþykkt á þingi og síðan sé áætlun rædd árlega. En ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hún sjái fyrir sér að sú ríkisáætlun verði með öðrum hætti en sú sem við erum að skoða hér. Það hefur verið rætt um að hún sé ekki nógu nákvæm, stefnumálin fái ekki nægilegt rými, það vanti ramma fyrir hvert og eitt ráðuneyti o.s.frv. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér breytingar sem fylgja í kjölfar laga um opinber fjármál?