144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:08]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski hluti af því eins og ég sagði áðan að leggja fram svona áætlun að mínu viti að við sjáum inn í ráðuneytin, þ.e. að við getum tekið málaflokka fyrir og rætt útgjaldaskiptinguna, hvernig fjármunum er skipt niður á hvert ráðuneyti. Við erum að ræða frumvarp um opinber fjármál í nefndinni og ég hef aðeins af því áhyggjur að við missum svolítið völdin til framkvæmdarvaldsins ef það verður að veruleika eins og það lítur út í dag, þótt ég telji að við séum að reyna að vinna það eins vel og hægt er og auðvitað verður ekki bæði haldið og sleppt í því, ég þekki það nú. En ég mundi gjarnan vilja að allar nefndir þingsins fengju sinn málaflokk til umfjöllunar, ef það er það sem hv. þingmaður er að spyrja um. Allsherjar- og menntamálanefnd fengi þann hluta frumvarpsins sem sneri að menntamálum og allsherjarmálum, velferðarnefnd fengi velferðarhlutann o.s.frv., þannig að við fengjum faglega umfjöllun um málaflokkana. Það er það sem við heyrðum af í Svíþjóð, af fjárlaganefndinni þar, þar er þetta gert með þeim hætti, sáralitlar breytingar gerðar og meiri agi ríkjandi. Ég held að það mundi gera alla þingmenn meðvitaða um hvað er í raun á þeirra sviði sem þeir eiga að sjá um það árið í nefndarstarfinu. Það gerir þingmenn væntanlega líka virkari í fjárlagaumræðunni vegna þess að það er kannski fyrst og fremst við fjárlagafólkið sem tökum þátt í þeirri umræðu og yfirleitt ekki mannmargt í salnum þannig að ég held að það mundi auka vitund fólks um fjárlögin.