144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:21]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það gladdi mig ósegjanlega að mér tókst að vekja upp gamalt baráttuminni hjá hv. þingmanni sem fór hér með uppáhaldslínur mínar úr alþjóðasöng jafnaðarmanna. Við ættum auðvitað að taka okkur saman um það einhvern tíma að syngja hann héðan úr þessum ræðustól, sérstaklega á þessum kjaradeilutímum.

Hv. þingmaður gerði að umræðuefni að ég hefði farið yfir það sem ég taldi vera feysknar stoðir í þeirri áætlun sem við ræðum hér. Ég hafði þó ekki algerlega lokið upptalningu minni á því. Ég vek eftirtekt hv. þingmanns til dæmis á því að á bls. 19 í greinargerðinni er að finna töflu sem sýnir áætlaða afkomu ríkissjóðs til ársins 2019, þ.e. bata frá fyrra ári, og það er dálítið fróðlegt að lesa út úr þeirri töflu. Niðurstaðan er eiginlega sú að þar sé um ákaflega hægfara bata að ræða sem mætti eiginlega helst kalla kyrrstöðu. Þar kemur fram að á milli yfirstandandi árs og 2016 er batinn 0,0% á frumjöfnuði ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Milli 2016 og 2017 er hann að vísu kominn upp í 1% en það gengur allt saman til baka árið eftir vegna þess að þá versnar frumjöfnuðurinn aftur um 0,7%, lagast svo á síðasta árinu um 0,1%. Frumjöfnuðurinn er sem sagt nánast óbreyttur á öllu tímabilinu og hann er ekkert að lagast. Af því tilefni er kannski rétt að rifja upp að þegar við vorum hér í ríkisstjórn voru þrjú stökk tekin á því kjörtímabili millum ára. Þetta tek ég sem dæmi um veikleika og mig langar til að spyrja hina vösku baráttukonu sem fór hér með línur úr alþjóðasöng jafnaðarmanna áðan: Hvað finnst henni um það sem ríkisstjórnin sýnir þarna á spilin, sem er í reynd gagnvart opinberum starfsmönnum ekkert annað en 2% kaupmáttaraukning á sama tíma og búið er að gera stóra samninga við bæði lækna og kennara?