144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:23]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir launafólk í landinu. Það verður bara að segjast eins og er að ríkisstjórnin hefur ekki mikinn skilning á þörf fyrir það að bæta kaupmátt launafólks og þá er ég að tala um þann hluta launafólks sem hefur setið eftir. Mér finnst oft í umræðunni bæði hjá hæstv. fjármálaráðherra og öðrum að verið sé að reyna að etja saman því launafólki á almenna vinnumarkaðinum sem þarf að búa við kjör upp á kannski 200–250 þús. kr. á mánuði, sem er auðvitað allt of lítið, og þeim sem eru í opinbera geiranum, t.d. þeim sem eru í BHM og eru nú í verkfallsátökum og fá kannski eftir langt nám rúmar 300 þús. kr. á mánuði. Það er eins og verið sé að etja þessum stéttum saman og láta það ganga út á það að vera alltaf í eilífum samanburði á milli, það megi aldrei draga saman milli ákveðinna hópa, þá sé allt ómögulegt, eins og mér fannst liggja í ummælum hæstv. fjármálaráðherra um að ef laun hefðu ekki hækkað svo mikið á almenna vinnumarkaðinum þá væru kannski stéttir innan BHM sáttar við sinn hlut.

Ég hef miklar áhyggjur af því að frumjöfnuður sé í raun óbreyttur og hef áhyggjur af þessum hægfara bata og jafnvel kyrrstöðu. Það er auðvitað af því að ríkið hefur afsalað sér miklum tekjum, hátt í 30 milljörðum. Það hefur eitthvað að segja í öllu heildarsamhenginu og því hve hægfara bati er í raun og veru á ferðinni, þegar við ættum að vera á blússandi ferð upp á við.