144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er verið að snúa frá þeirri stefnu sem var á síðasta kjörtímabili að jafna kjör í landinu. Eitt af því sem var vel gert á síðasta kjörtímabili var að koma á þessu þrepaskipta skattkerfi sem reyndist mjög vel fyrir lágtekjufólk og millitekjufólk. Nú heyrist mér að ríkisstjórnin sé að skoða það að stefna í eitt skattþrep sem er auðvitað mjög slæmar fréttir hvað jöfnuð varðar milli fólks í tekjum, mismunandi tekjum. Þetta er allt mikið áhyggjuefni. Menn eru búnir að afsala sér tekjum í veiðigjöldum eins og við þekkjum og það er einnig ójöfnuður í innheimtu veiðigjalda. Menn afsala sér auðlegðarskatti og orkuskatti og svo má lengi áfram telja. Svo allt stefnir þetta á einn veg. Ég held (Forseti hringir.) að við sem teljum okkur vera jafnaðarmenn og sósíalista þurfum að berjast hart gegn þeim ójöfnuði sem hér kemur fram.