144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Loksins, loksins gefa veðurguðirnir okkur færi á að dæla sandi úr Landeyjahöfn. Fagna ég því mjög að þessi mikla samgönguæð opnist sem er okkur öllum landsmönnum svo mikilvæg. Eftir þrálátar sunnanáttir í allan vetur með tilheyrandi ölduhæð er hann loks lagstur í norðanátt. Því miður er það ekki hæg norðanátt heldur hvöss norðanátt með tilheyrandi kulda og snjókomu fyrir norðan, en þar sem það er landátt í Landeyjum geta sanddæluskipin athafnað sig í miklum vindi.

Hvað getum við lært af þessum vetri? Kannski það að það er alveg sama hvaða skip hefði verið í siglingum milli lands og Eyja í vetur, stórt eða minna skip, að ekki hefði verið möguleiki á að halda uppi siglingum af neinu viti? Í fyrra opnaðist höfnin í byrjun mars en að þessu sinni í byrjun maí. Enginn mannlegur máttur getur haldið óbreyttri Landeyjahöfn opinni allt árið. Því fyrr sem við horfumst í augu við það og einbeitum okkur að því að þróa hafnargarða sem virka, því fyrr verður raunverulegur möguleiki á að Landeyjahöfn nýtist allt árið. Ég hvet því menn til að beina kröftum og fjármunum frekar í að þróa hafnargarða en að smíða minna skip.

Ég get ekki komið hér upp undir liðnum um störf þingsins án þess að minnast á störfin í þinginu og það mál sem hefur verið mikið í umræðunni síðustu daga þar sem sá sem hér stendur er ítrekað sakaður um spillingu. Sárast þykir mér þó að samstarfsmenn mínir í nefndum stökkvi á vagninn um leið og fjölmiðlafárið byrjar. Ég skora á þingmenn að gera breytingar á hagsmunaskráningu þingmanna þótt ekki væri nema bæta aukareit við skráningareyðublaðið svo hægt sé að setja aukaupplýsingar ef menn kjósa svo. Ég hef þegar sent út fréttatilkynningu um mín mál og vona að hún skýri mína hlið fyrir þeim sem vilja skilja á annað borð.