144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Mig langar að vekja athygli á jákvæðri frétt frá í síðustu viku sem birtist á Eyjunni fyrir viku síðan og í fyrirsögninni segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Samfylkingin styður kröfur launþega — í fyrsta skipti sem sá stuðningur kemur afdráttarlaust fram.“

Í fréttinni segir frá ályktun sem þingflokkur Samfylkingarinnar setti saman um stuðning sinn við 300 þús. kr. lágmarkslaun. Eftir því hafði mjög verið kallað úr hópi grasrótar flokksins, bæði landshlutafélaga og verkalýðsfélaga. Ein helsta röddin í kverúlantakór Samfylkingarinnar kallaði flokkinn, með leyfi forseta, daufasta flokk í heimi. (Gripið fram í.)

Á flokksþingi Framsóknarflokksins var ályktun í þessa veru samþykkt en landsfundur Samfylkingarinnar var ekki notaður til þess að hugsa sérstaklega um launafólk því að þar voru menn uppteknir af því að brugga sitjandi formanni launráð (Gripið fram í: Rétt.) og skildu hann eftir á köldum klaka. (Gripið fram í: Rétt.) Þeir skildu hann eftir í raun og veru í sömu stöðu og kúrekann í texta Halla og Ladda frá því hérna um árið. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Einn. — Hættu að telja, þetta er ég.“

Í þeirri stöðu er formaður Samfylkingarinnar í dag.

Það er náttúrlega gott að búið sé að brýna deigt járn svo það bíti að lokum og auðvitað ber að fagna því að Samfylkingin hafi fundið verkalýðsarm eða verkalýðstengsl sín. En í ljósi þess sem fram kemur í þessari ræðu verð ég að viðurkenna að mér fannst það skjóta skökku við að formaður þingflokks Samfylkingarinnar sagði í sjónvarpi á sunnudaginn að saga Samfylkingarinnar og verkalýðshreyfingarinnar væru samofnar. (Gripið fram í.)