144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Sykurskattur gömlu vinstri stjórnarinnar gilti í 21 mánuð, var þungur skattur á heimilin í landinu. Rannsóknarsetur verslunarinnar rannsakaði áhrif sykurskattsins á verð og neyslu og niðurstaðan var: Skatturinn skilaði ríkissjóði tæpum milljarði í skatt. Skattlagning vinstri stjórnarinnar, til að breyta neysluvenjum fólksins í landinu, var í raun skattur á heimilin samkvæmt niðurstöðu Rannsóknarseturs verslunarinnar. Þetta rifjar upp fyrir mér stór orð minni hlutans í þinginu þegar við ræddum breytingar á virðisaukaskattsfrumvarpinu hér fyrr í vetur.

Virðulegur forseti. Nú er öðruvísi farið að. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur gengið á undan með lækkun skatta og niðurfellingu vörugjalda og lækkað og minnkað álögur á heimilin og atvinnulíf í landinu. Verðbólgan er í sögulegu lágmarki og hefur verið það í langan tíma. Kostnaður hefur lækkað, kaupmáttur eykst og geng krónunnar hefur styrkst.

Virðulegi forseti. Af hverju er ekki verðhjöðnun í landinu við þessar aðstæður? Má ekki fara fram á þjóðarsátt um lækkun verðlags? Nei, það einkennilega gerist að verðlag hækkar á sama tíma og stöðugleiki ríkir í samfélaginu.

Frá 1. janúar 2013 til 1. mars síðastliðinn hefur svínakjöt hækkað um 8,43% til neytenda, en á sama tíma hefur verð á svínakjöti til bænda lækkað um 8,91%. Þessar upplýsingar komu fram í hæstv. atvinnuveganefnd í morgun. (ÖS: Þetta er svínarí.) Þetta er svínarí. Ég tek undir það með hv. þingmanni. Ég velti fyrir mér á hvaða vegferð er verslun í landinu. Þegar fólk er að sækja aukinn kaupmátt og hærri laun þá er verslunin að stela því af fólki með því að taka ekki þátt í þeirri sátt sem þarf að ríkja. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)