144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að gera að umtalsefni hér í störfum þingsins háttalag erlendra listamanna gagnvart íslenskri náttúru. Á skömmum tíma hefur það gerst í tvígang að erlendum listamönnum hefur þótt við hæfi að misnota íslenska náttúru. Það gerðist norður í landi, að mig minnir síðastliðið ár, þar sem mosi var skemmdur og minjar. Listamaðurinn tók af því mynd og sýndi síðar. Nú fyrir skömmu finnst öðrum listamanni við hæfi að mæta austur við Geysi, setja litarefni í Strokk og mynda þar einhvers konar gjörning.

Ekki veit ég, virðulegur forseti, hvort þessum listamönnum hefur verið hegnt á einhvern hátt eða mál þeirra tekin fyrir. Það sem mér finnst vanta nú eru athugasemdir, hróp og köll, frá Bandalagi íslenskra listamanna sem fordæmir framgöngu af þessu tagi. Við erum gjörn á að fara og mótmæla því ef við sjálf gerum eitt eða annað. Hér koma þekktir listamenn utan úr heimi og leyfa sér slíka framgöngu að því er virðist án þess að þurfa að borga sektir eða að tekið sé á málum þeirra því að við heyrum eingöngu um gjörning þeirra í fréttum en ekkert síðar.

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta ömurlegt. Ég leyfi mér að vísa þessum ræðustúf til umhverfis- og samgöngunefndar til skoðunar á því hvernig tekið er á slíkum málum í samfélaginu og hvað við getum gert til þess að koma í veg fyrir að erlendum listamönnum þyki slík framkoma við íslenska náttúru við hæfi.