144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að koma upp í ræðustól eftir skörulega ræðu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur. Ég vil eins og aðrir þingmenn, eins og hv. þm. Sigríður Á. Andersen og hv. þm. Kristján L. Möller, gera að umtalsefni þá forgangsröðun sem er í vinnu þingmanna og þingnefnda. Við bíðum öll eftir hinum mörgu málum frá ráðherrum, sérstaklega þó aðalhúsnæðisfrumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra sem aldrei kemur. Við getum því ekkert unnið með það, það liggur í hlutarins eðli. En þó er hér nóg að gera því að þingmenn hafa verið duglegir að koma að þingmannamálum og af því að við þingmenn vitum að það er erfitt að koma okkar málum að erum við vön því að koma þeim að í byrjun þings svo það standi nú ekkert upp á okkur. En þó að forseti hafi oft sagt að hér sé þingmannamálum sífellt gefinn meiri gaumur er það samt þannig að við höfum ekki afgreitt nógu mörg þingmannamál, þau fá alltaf að sitja eftir.

Við erum hér á þingi ekki einungis til þess að taka á móti málum seint og um síðir frá ráðherrum, heldur erum við kosin á þing til þess að fylgja sannfæringu okkar og koma fram með mál sem okkur þykja mikilvæg. Það er mjög mikilvægt að formenn nefnda og forseti Alþingis virði þá vinnu þingmanna og færi þau mál fremst í röðina þar sem þau voru til að byrja með, af því að þingmenn eru alltaf snemma með sín mál.

Ég kalla eftir því af því að ég veit að mörg þingmannamál bíða afgreiðslu sem (Forseti hringir.) voru fyrir löngu tilbúin af hálfu þingmanna.