144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Mér er nokkur vandi á höndum. Það er ekki oft sem 4. þm. Reykv. n. stígur í þennan ræðustól blíður og sæll og einarður í þeim ásetningi að hrósa ríkisstjórninni en ég sé að hæstv. fjármálaráðherra sem átti að verða andspæni lofs míns í upphafi ræðunnar er ekki hér í sæti sínu. Er von á honum til þings til að hann megi hlýða á mín orð eða er hann fjarri? Hæstv. forseti veit að ég legg ekki í vana minn að krefjast ráðherra til fundar, en er von á honum?

(Forseti (EKG): Forseti telur að ekki sé von á hæstv. fjármálaráðherra.)

Þá verð ég kannski að stytta ræðu mína og heldur flytja hana þegar kemur að síðari umr. þessa máls. Ég vildi byrja á því að segja að ég er ánægður með að hæstv. ríkisstjórn hefur loksins lagt fram í fyrsta skipti ríkisfjármálaáætlun til fjögurra ára. Þar með er brotið í blað og það má segja að ríkisstjórnin standi þannig við þau ákvæði og kvaðir sem er að finna í þingskapabreytingum frá 2011 um að leggja fram slíka áætlun.

Partur af tilganginum með henni er vitaskuld að auka veg þingsins og vald. Það er verið að gera þinginu kleift að koma fyrr að umræðum um markmið, höfuðlínur og stærstu þætti í ríkisfjármálum áður en kemur beinlínis að því að menn ræða fjárlagafrumvarp hvers árs hverju sinni. Þetta finnst mér lofsvert. Nú er þó ekki í fyrsta skipti vísir að slíkri áætlun lagður fram. Ég rifja það upp, herra forseti, að í tíð fyrri ríkisstjórnar var lögð fram greinargerð af þessum toga, þó ekki sem þingmál, árin 2009, 2011 og 2012 og reyndist hið nýtasta gagn. Ég tel að áætlun af þessu tagi sé mjög góð sem vinnutæki fyrir þingið. Hún gerir okkur kleift að skyggnast fram í tímann og sömuleiðis að flytja til á milli málaflokka ef um það verður samstaða á hinu háa Alþingi eða ráðast í nýjar framkvæmdir ef menn telja nauðsynlegt. Til dæmis hefði verið æskilegt að sjá í þessari áætlun gert ráð fyrir því að ráðist yrði í byggingu nýs Landspítala á næstu árum, en því miður er ekkert sem bendir til þess að það eigi að verja til þess nokkru sérstöku fé utan þess sem kemur fram í áætluninni, að það á að ljúka byggingu sjúkrahótels og sömuleiðis hönnun meginkjarna, en fyrir utan þær 700–800 milljónir sem eru lagðar til hönnunarinnar og síðan byrjunar á meginkjarna spítalans, ja, það eru ekki nema 5–6 milljarðar á öllu tímabilinu og þá sjá menn auðvitað að ekki er gefið neitt rými fyrir það í þessari áætlun.

Það er eðli þeirra valdþátta sem leika saman í okkar stjórnskipan að Alþingi hefur það hlutverk með höndum að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Það er kannski ekki síst hlutskipti okkar í stjórnarandstöðu að leggja fram, ef svo ber undir, málefnalega og hvassa gagnrýni á þau mál sem koma frá ríkisstjórninni. Það er það og sá samleikur valdþáttanna sem gerir það að verkum að þetta samfélag okkar er þrátt fyrir allt og hvað sem hver segir bærilega gott.

Á sama tíma og ég lýsi ánægju minni með að ríkisfjármálaáætlun kemur fram, og ætlaði að hrósa hæstv. fjármálaráðherra fyrir það, verð ég auðvitað að segja að um leið er slík áætlun spegill sem borinn er upp að stefnu valdhafa hverju sinni. Það verður að segjast eins og er að ég er ekki sammála því með hvaða hætti stefnan birtist af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Það kemur til dæmis fram í þessari áætlun að gert er ráð fyrir því að samneysla aukist giska lítið og miklu minna en ég taldi að sammæli væru um meðal alþingismanna að ráðast í bak kreppunni.

Við vitum öll að hér reyndist nauðsynlegt að ráðast í mjög mikinn samdrátt og niðurskurð þegar við blasti gapandi hola í fjárlögum íslenska ríkisins upp á 213 milljarða, sem ég er viss um að hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon mundi núvirða upp á 290 milljarða. Menn þurftu þess vegna að ráðast í mjög harðar aðgerðir en það varð sammæli allra að þegar því væri lokið og við værum að sigla út, eins og kemur giska vel fram í greinargerð með þessu frumvarpi, mundu menn slá í. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því að samneyslan aukist á þessum tíma nema að meðaltali um 1,6% á ári. Til samanburðar má rifja það upp að á árunum fyrir hrun jókst hún um 4% á ári.

Það er hlutverk okkar sem erum í stjórnarandstöðunni að benda á það sem kunna að vera veikleikar í þessari þingsályktunartillögu. Það eru margir veikleikar í henni, það er ekki hægt að segja annað. Í fyrsta lagi nefni ég alveg sérstaklega að fram undan eru mjög erfiðar kjaradeilur. Við heyrðum áðan hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson lýsa því sterkum orðum með hvaða hætti óvissa væri fram undan og mikill óróleiki og kannski erfiðasta staða sem upp hefur komið á vinnumarkaði um áratugi. Það voru orð stjórnarþingmanns, ekki mín. Ég segi því: Í áætluninni er hvergi gert ráð fyrir neinni óvissu vegna þessa varðandi komandi ár. Þó má lesa út úr henni hvaða niðurstöðu hún gerir ráð fyrir, 2% aukningu á kaupmætti. Ég spyr, herra forseti: Verður þetta ekki að teljast veikleiki? Telja menn virkilega að það sé hægt að ljúka kjarasamningum á einhverjum slíkum nótum í kjölfar þess að ríkið sjálft hefur nýverið lokið kjarasamningum við lækna og kennara sem sennilega hlaupa á þriðja tug prósenta? Ég held að það sé ákaflega ólíklegt.

Í annan stað vísa ég til niðurlagsorða hæstv. fjármálaráðherra í framsögu sinni þar sem hann lýsti því með mjög sterkum litum hversu bjart væri fram undan, landið skínandi hvítt og fagurt. Halda menn þá að fólk sem lifir á rétt liðlega 200 þús. kr. vilji ekki fá sinn skammt af þessari velsæld sem lýst er? Sannarlega.

Veikleiki númer tvö sem ég sé á þessu er afnám gjaldeyrishafta. Þau eru fram undan, mikilvægasta og það vandasamasta verk sem við höfum glímt við sameiginlega. Það getur valdið mikilli óvissu varðandi bæði gengi og vaxtastig en varla er orði aukið að því. Þó vil ég líka segja að í þessu frumvarpi eru kannski ekki taldir fram duldir ávinningar en ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki hægt að aflétta gjaldeyrishöftum öðruvísi en að raka hressilega krónueign slitabúanna. Ég er þeirrar skoðunar, miðað við þær sviðsmyndir sem lágu fyrir í lok síðasta kjörtímabils af hálfu síðustu ríkisstjórnar, Seðlabanka og AGS, að það kunni að leiða til þess að töluverður búhnykkur falli í skaut ríkisins sem samkvæmt áætlun síðustu ríkisstjórnar átti einungis að fara til þess að lækka skuldir ríkisins. Það gæti hlaupið á hundruðum milljarða. Ég ætla að leyfa mér að spá því að það ætti, til þess að vel væri í haginn búið fyrir afnám gjaldeyrishafta, að geta losað 300 milljarða. Það skiptir máli og til þess að vera ærlegur vil ég að það komi líka fram að það er ekki talið heldur til þess sem hugsanlega má gera ráð fyrir í framtíðinni.

Í þriðja lagi tel ég það mikinn veikleika að gert er ráð fyrir því að skuldir ríkisins á þessum áætlunartíma lækki um nánast ekki neitt. Þær lækka að vísu sem hlutfall af landsframleiðslu, af því að hún eykst, en absalútt staða skuldanna breytist ekkert. Það er með ólíkindum miðað við hvernig stöðu þjóðarbúsins er lýst. Þetta sjáum við mjög rækilega á stöplariti á bls. 21 í greinargerðinni, þá lækkar aðeins í upphafi en síðan ekki söguna meir. Og af hverju á að lækka í bláupphafi þessa áætlunartíma? Jú, vegna þess að það á að selja 30% hlut í Landsbankanum og þar birtist annar veikleiki. Alveg sama hvort menn eru með því eða á móti blasir við að hinn stjórnarflokkurinn er á móti því. Hann hefur nýlega samþykkt ályktun um að Landsbankinn eigi að vera samfélagsbanki og ekki halda menn bankanum bæði í því horfi og selja stóran hluta af honum. Þetta er alvarlegur veikleiki.

Þegar maður skoðar með hvaða hætti hæstv. fjármálaráðherra ætlar að skila ríkissjóði á næstu árum sjáum við að ekki er gert ráð fyrir neinni sérstakri aukningu eða bata á frumjöfnuði ríkissjóðs ef maður skoðar það sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þetta kemur skýrt fram í töflu á bls. 19 og þar er sýnt að batinn á milli 2015 og 2016 er 0%. Á milli 2016 og 2017 er hann að vísu 1%. Það gengur til baka næsta ár því að þá er hann kominn aftur niður í 0,7% og á svo að lagast um 0,1% árið 2019. Herra trúr, ég vísa bara til þess sem gerðist á síðasta kjörtímabili þegar frumjöfnuðurinn jókst í stórum stökkum þremur sinnum á kjörtímabilinu. (Forseti hringir.) Þetta verð ég að segja að miðað við ríkisstjórn sem horfir til framtíðarinnar með þessari birtu er mikill veikleiki að gera ekki ráð fyrir því að skuldirnar lækki.