144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:19]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Við erum hér í umræðu um þingsályktunartillögu um ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019. Þetta er sú fyrsta sinnar tegundar og því ber að fagna að hún er komin fram og markar vonandi nýjan tíma í umræðu þingsins um ríkisfjármál.

Fulltrúi Samfylkingarinnar, hv. þm. Oddný Harðardóttir, fór ágætlega yfir efni ályktunarinnar. Formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason, gerði ekki síst undirliggjandi efnahagsþáttum jafnframt góð skil enda okkar fulltrúi í efnahags- og viðskiptanefnd. Hann fór mjög vel yfir þann þátt. Ýmsir þingmenn flokksins hafa líka tjáð sig um málið, nú síðast hv. þm. Össur Skarphéðinsson.

Ég ætlaði að nálgast þetta út frá því að þessi ríkisfjármálaáætlun er ekki eingöngu áætlun um þróun í ríkisfjármálum og efnahagsstærðum heldur jafnframt pólitískt stefnuplagg. Við skulum skoða þetta pólitíska stefnuplagg í því ljósi að í fjölmiðlum hefur sá ráðherra sem þetta mál leggur fram, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, sagt að kannski hafi verið gengið of langt í átt til jöfnuðar hér á landi, að launakröfur séu of háar, og óþreytandi er hann að minna á þá stefnu Sjálfstæðisflokksins að lækka þurfi skatta. Þetta plagg ber mark þessarar pólitísku sýnar formanns Sjálfstæðisflokksins, að það skuli ívilna þeim ríkari á kostnað þeirra sem minna hafa og bera úr býtum og á kostnað þjónustunnar sem við eigum öll saman og njótum öll saman og býr til betra og réttlátara samfélag.

Við munum á eftir fara í langþráða umræðu um húsnæðismál þó að ekki sé nema hluti frumvarpanna kominn fram, en ég rek augun í það sem segir hér á bls. 2, með leyfi forseta:

„Unnið er að breytingum á húsnæðisstefnu stjórnvalda með það að markmiði að styðja betur við tekjulágar fjölskyldur og styrkja stöðu fyrstu íbúðakaupenda.“

Þetta eru fögur fyrirheit þó að þau segi ekki mikið en á bls. 5 er þetta eiginlega tekið til baka með hálfgerðum hótunum. Það er verið að tala um kjarasamningana og óvissu- og áhættuþáttinn í íslensku efnahagslífi fyrir þær sakir og að þá verði að leysa þannig að verðstöðugleika verði ekki raskað. Þá segir, með leyfi forseta:

„Að öðrum kosti verður þörf á að endurmeta forsendur áætlunargerðarinnar og getur það m.a. haft áhrif á getu ríkisins til að grípa til aðgerða hvort sem er á tekju- eða gjaldahlið áætlunarinnar. Slíkt kann því að hafa áhrif á áform í skattamálum, fjárfestingum og eftir atvikum á öðrum sviðum, svo sem í húsnæðismálum. Þá er stöðugleiki í efnahagsmálum jafnframt mikilvægur fyrir undirbúning aðgerða til afnáms fjármagnshafta.“

Ef Sjálfstæðisflokknum finnst launafólk bera of mikið úr býtum í kjarasamningum á það að koma niður á áformum í skattamálum, fjárfestingum og húsnæðismálum. Ég ætla að vera svo ófyrirleitin að leyfa mér að spá því að það verði helst látið bitna á fjárfestingum og húsnæðismálum en að ekki verði dregið úr skattalækkunum sem virðast vera um það bil það eina sem þessi ríkisstjórn getur gert nema þegar kemur að því að hækka skatta á matvæli. Þar má hækka skatta, það þótti ekki neitt vandræðamál. Af því að við erum í sköttunum vil ég gera það að umtalsefni að hv. þm. Össur Skarphéðinsson var í ræðustól á undan mér og fór yfir það áhyggjuefni að þrátt fyrir mjög góða afkomu ríkissjóðs sem til er komin vegna þrotlausrar vinnu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur allt síðasta kjörtímabil mun ekki takast að lækka skuldir ríkisins nema sem hlutfall af vergri landsframleiðslu af því að hún mun vaxa en þær verða ekki að lækka að nafnverði. Þá er kannski ágætt að benda hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni á að það verður væntanlega verkefni okkar þegar við komumst vonandi í meiri hluta á þinginu eftir næstu kosningar að kljást við skuldirnar, þá arfleifð frá Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki sem þau treysta sér ekki til að takast á við.

Við skulum aðeins skoða hvort þessi skortur á aðgerðum til að grynnka á skuldum sé nauðsynlegur. Við teljum öll mikilvægt, a.m.k. við á vinstri væng stjórnmálanna, að grynnka á skuldunum af því að vaxtakostnaðurinn er svo mikill, meira að segja meiri en í öðrum löndum af því að við erum með svo óhagfelldan gjaldmiðil. Vextirnir eru svo háir að þeir taka til sín stóran hluta af ríkisútgjöldunum. Þess vegna viljum við lækka skuldirnar. Er verið að slaka á í því af því að svo mikið sé lagt til menntamála, heilbrigðismála eða almannatryggingakerfisins? Nei, herra forseti, sú er ekki raunin. Það var ákveðið að verja 80 milljörðum, sem hefðu getað að einhverju leyti farið í að greiða niður skuldir, í að færa niður skuldir heimilanna. Sumt af því voru nauðsynlegar aðgerðir en 51 milljarður af þeim 80 hefur farið samkvæmt frumvarpi fjármálaráðherra til 30% tekjuhæstu heimila landsins. Þarna var 51 milljarður sem við hefðum getað notað til að grynnka á skuldum. Í veiðigjöldunum sem voru lækkuð hefðu verið fjármunir til að lækka skuldir og það umtalsvert, fjárflæðið árlega inn í ríkissjóð til þeirra þarfa. Auðlegðarskatturinn sem ríkisstjórnin heyktist á að framlengja, skatturinn sem lagður er á þá einstaklinga á Íslandi sem hvað mestar eignir eiga, þ.e. hreinar eignir umfram 100 milljónir — nei, það var ekki mikill vilji til að framlengja þann skatt. Það virðist algjörlega ómögulegt fyrir núverandi ríkisstjórn að finna út skatt á ferðamenn, skatt sem er lífsnauðsynlegt að leggja á fyrst og fremst til að afla tekna til að viðhalda hér ferðamannastöðum og byggja upp nýja og ýmis stofnkerfi í kringum þessa ört vaxandi mikilvægu grein sem er nú stærsta útflutningsgrein landsins.

Það er erfitt að lesa plagg sem þetta um ríkissjóð sem er í raun og veru kominn á lygnan sjó. Það þarf að leysa ýmis erfið verkefni sem lúta að fjármagnshöftum, sem lúta að Íbúðalánasjóði og skuldbindingum vegna lífeyrissjóða. Það er af ýmsu að taka og næg verkefni fram undan sem krefjast bæði hugrekkis og heildar- og framtíðarsýnar. Það er bagalegt að horfa upp á að þetta á að nýta til að lækka skatta á þá sem mest eiga. Það er þegar búið að gera og það er enn haldið áfram að boða frekari skattalækkanir þannig að við munum á næstu árum ekki greiða niður skuldir. Það sem er enn alvarlegra er að við munum ekki auka samgönguúrbætur eins og farið hefur verið út í. Við munum ekki leggja umtalsvert fé í heilbrigðiskerfið sem er lífsnauðsynlegt. Við munum ekki leggja aukið fé í menntakerfið enda ætlum við að stjaka fólki 25 ára og eldra úr framhaldsnámi og ekki inn í háskólana. Það eru fyrirheit um breytingar á almannatryggingakerfinu en þar virðast fjármunir vera vandamál og það virðist ekki vera vilji til að setja aukið fé inn í málefni fatlaðra sem eru nú í reiptogi milli sveitarfélaga og ríkisins. Það er þessi pólitíska sýn sem ég harma og ég vona að hv. fjárlaganefnd sýni mátt þingsins og breyti áherslunum í þessu rammaplaggi.