144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við þingmenn Samfylkingarinnar höfum látið okkur þessa umræðu nokkru varða, enda komum við að verkum við það að snúa við ríkisfjármálunum á síðasta kjörtímabili, tókum við ríkissjóði með nærfellt 200 milljarða halla og hér þurfti að taka margar erfiðar ákvarðanir til að snúa því dæmi við. Það er hins vegar ekki að sjá að stjórnarliðið taki þessa umræðu ýkja alvarlega og satt að segja er eiginlega ótrúlegt að fjármálaráðherra hirði ekki einu sinni sjálfur um að vera viðstaddur fyrri umr. um stefnumörkun í ríkisfjármálum fyrir sína eigin ríkisstjórn. Það bendir satt að segja til þess að það sé ekki bara stjórnarliðið sem taki þetta plagg í engu alvarlega heldur taki sjálfur fjármála- og efnahagsráðherra þetta ekkert sérstaklega alvarlega. Þá spyr maður sig hvort einhver vinna eða stefnumörkun hafi verið lögð í þetta plagg sem mark er á takandi úr því að ráðherrann nennir ekki einu sinni sjálfur að sitja yfir umræðunni og stjórnarliðar taka engan þátt í henni núna annan daginn í röð ef undan er skilinn hv. þm. Willum Þór Þórsson ef ég man þetta rétt og kannski einhverjar stöku undantekningar aðrar sem hafa fram hjá mér farið.

Það hefur verið kallað eftir svörum einmitt um þetta, m.a. vegna þess að áætlunin byggir á sölu á eignarhlutum sem við sjáum ekki betur en að samstarfsflokkur fjármálaráðherra hafi nýverið ályktað gegn, þ.e. Framsóknarflokkurinn ályktaði nýverið um að gera eigi Landsbankann að samfélagsbanka af einhverju tagi sem felur í sér að flokkurinn getur ekki á sama tíma stutt áform um að ríkið selji eignarhluta sína í bankanum á markaði til hæstbjóðenda sem gera skýrar arðsemiskröfur til eignarhluta sinna. Sú áætlun sem fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt hér fram byggir á því að þessir eignarhlutar séu seldir. Þess vegna er vandséð hvernig þessi ríkisstjórn ætti að gera þá áætlun sem hér er lögð fram til fyrri umr. að veruleika og verður spennandi að sjá hvort þingmenn Framsóknarflokksins með Vigdísi Hauksdóttur, formann fjárlaganefndar, í broddi fylkingar munu standa að því að koma inn með þessar tillögur um sölu á eignarhluta í samfélagsbankanum óbreyttar til síðari umr.

En kannski á bara ekkert að taka þetta alvarlega.

Hitt hljótum við að taka alvarlega, þ.e. með hvaða hætti málaflokkur hæstv. ráðherra Eyglóar Harðardóttur er leikinn í þessari áætlun, hvernig félagsmálin eru afgreidd í þessari áætlun um ríkisfjármál þar sem ekki verður séð að fyrir dyrum standi neinar sérstakar kjarabætur til handa tugþúsundum aldraðra í landinu og 16.500 örorkulífeyrisþega sem hafa mátt bíða býsna lengi eftir því að sjá einhverja leiðréttingu sinna kjara. Það bólar satt að segja ekki á neinum framlögum svo nokkru nemi í húsnæðismálum sem er sennilega að verða eitthvert stærsta vandamálið í samfélaginu. Fyrst hæstv. fjármálaráðherra er ekki við umræðuna til að svara spurningum um sitt eigið mál geri ég ráð fyrir að hæstv. félagsmálaráðherra, Eygló Harðardóttir, sé stödd í húsinu og kalla eftir því að hún svari því við umræðuna hvort það sé rétt sem maður les út úr áætluninni, að ríkisstjórnin geri ekki ráð fyrir neinum umtalsverðum auknum framlögum, ekki í lífeyri handa öldruðum, ekki í framfærslu fyrir örorkulífeyrisþega og ekki til neinna umtalsverðra lausna í húsnæðismálum. Ef ríkisstjórnin ætlar að skilja þessi stóru félagsmál eftir næstu þrjú árin án þess að gera nokkuð að marki í þeim skil ég betur hvers vegna stjórnarliðar taka ekki þátt í umræðunni. Það er þá stefnumörkun sem varla nokkur maður getur varið og kannski bara ósköp eðlilegt að formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, skuli hafa kosið að láta ljúka umræðunni að sér fjarstöddum, jafn óvenjulegt og það má heita.