144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það sem ég vil aðeins bæta við af minni hálfu inn í þessa umræðu, ég hafði ekki tíma til að fjalla um það með fullnægjandi hætti í fyrri ræðu, er um framtíðarhorfurnar og þær staðreyndir sem þarna er verið að birta okkur eða þá pólitísku stefnu sem þarna er mótuð. Ég hef verið hugsi yfir henni síðan ég fékk plaggið í hendur og fór að stúdera það. Ég er satt að segja undrandi á að það skuli ekki hafa vakið meiri athygli úti í þjóðfélaginu hvert hér er verið að stefna, t.d. í yfirstandandi kjaraviðræðum. Einhvern tíma hefðu aðilar vinnumarkaðarins og kannski sérstaklega verkalýðshreyfingin horft til þess hvað er verið að bjóða upp á í sambandi við áherslur í ríkisfjármálum og samneyslu á komandi árum. Alvarlegustu einstöku töluna í þessu tel ég vera þá áætlun að frumgjöld án óreglulegra liða verði komin niður í 23,4% af vergri landsframleiðslu árið 2019. Hvað eru frumgjöld án óreglulegra liða? Það er hinn raunverulegi undirliggjandi rekstur ríkisins að frádregnum plúsum og mínusum sem falla til með óreglulegum hætti. Það eru sem sagt útgjöldin að frádregnum vaxtakostnaði og óreglulegum liðum. Ég fullyrði að þetta er langlægsta hlutfall sem okkur hefur verið sýnt fram á í áætlunum af þessu tagi og verulegt frávik frá fyrri ríkisfjármálaáætlunum bæði vorsins 2009, haustsins 2011 og haustsins 2012. Þetta er ósköp einfaldlega áttavitinn stilltur í burtu frá norrænu velferðarsamfélagi. Það er þannig. Það er mjög athyglisvert að áætluninni skuli vera stillt þannig upp að samneyslan eigi ekki að fá einu sinni jafna hlutdeild á við annað í vexti landsframleiðslu á komandi árum. Einhver hefði gert sér vonir um að þegar drægi úr vaxtakostnaði ríkisins, þ.e. ef það gerist, mundu menn skipta því svigrúmi eitthvað upp, á milli fjárfestinga í innviðum og útgjalda til velferðarmála og kannski niðurgreiðslu skulda. Það er ekki.

Veikleiki þessarar áætlunar er líka sá að menn gefa sér lækkandi vaxtakostnað, ekki vegna þess að skuldirnar lækki að nafnvirði heldur vegna þess að vextir muni lækka. Það er sýnd veiði en ekki gefin. Er líklegt að raunvaxtastigið á Íslandi fari mikið niður, ég tala nú ekki um ef hér verður óróleiki á vinnumarkaði og Seðlabankinn telur sig þurfa að vinna gegn hættu á þenslu með beinum vaxtahækkunum? Er líklegt að fyrstu árin eftir afnám gjaldeyrishafta, ef hún verður að veruleika, muni menn geta keyrt með mjög lága raunvexti á Íslandi? Nei, það er ekki mjög líklegt þannig að ég tel að áformin um að minnkandi vaxtakostnaður á næstu fjórum árum spari okkur ígildi 1 prósentustigs af vergri landsframleiðslu séu óraunhæf. Ef það þó gerðist og ég hefði rangt fyrir mér, sem ég vona auðvitað, stendur ekki til að framkvæmdir í vegamálum eða útgjöld til almannatrygginga og velferðarmála njóti þess í einu eða neinu. Þvert á móti á að raunlækka útgjöldin á þann mælikvarða að frumgjöldin fara jafnt og þétt niður og verða 1 prósentustigi lægri af vergri landsframleiðslu í lok tímans 2019. Ég held að félagslega sinnuð öfl í landinu, verkalýðshreyfingin og aðrir sem taka það til sín, þurfi að skoða málið mjög vandlega.

Þetta eru mannanna verk. Þetta er búið til með þegar ákvörðuðum skattalækkunum með því að 11 milljarðar í auðlegðarskatti eru farnir fyrir borð á einu bretti. Menn létu sér ekki einu sinni nægja að lækka hann eða endurskoða hann, nei, menn felldu hann niður eins og hann lagði sig þannig að efnuðustu fjölskyldurnar í landinu fengu mestu gjöf að þessu leyti sem lengi hefur verið uppi. Veiðigjöldin hafa verið lækkuð, tekjuskattur af miðþrepi lækkaður, vörugjöld felld niður af ýmsum lúxustækjum þó að matarskattur væri að vísu hækkaður á móti. Um næstu áramót fellur niður orkuskattur upp á 2,2 milljarða og síðan eru boðaðar, uppsafnað til loka tímans, samtals 6 milljarða skattalækkanir í viðbót, og það er tekjutap. Það er þetta stóra svigrúm sem er horfið sem gerir það að verkum að ríkisstjórnin leggur fram áætlun af þessu tagi og hún vill það sjálfsagt pólitískt.

Ég veit alveg að ekki eru allir læsir á þessar tölur eða átta sig endilega á því hvað er sagt með tölu af þessu tagi, að frumútgjöld verði komin niður í 23,4%, en þetta er kannski einhver stærsta og sverasta pólitíska yfirlýsing sem þessi ríkisstjórn hefur gefið til þessa, að hún ætlar að (Forseti hringir.) skerða samneysluna sem þessu nemur.