144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:45]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Sú umræða sem hefur átt sér stað um þessa þingsályktunartillögu um ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019 er ný af nálinni. Eins og komið hefur fram kom sú hugmynd fram við breytingu á þingsköpum Alþingis, ef ég man rétt 2011, að setja þetta í þingsköp um leið og ákveðið var að Alþingi kæmi fyrr saman, þ.e. annan þriðjudag í september í staðinn fyrir 1. október eins og áður hafði verið. Það var einmitt gert til að skapa Alþingi meiri tíma til að ræða fjárlög hvers árs í fjárlaganefnd á þinginu og í öðrum nefndum. Þess vegna fagna ég því að þessi þingsályktunartillaga sé loksins komin fram. Ef ég man rétt, það kann að vera misminni, átti hún að koma fram á síðasta ári en gerði ekki. Það voru kannski gildar ástæður fyrir því en hún er sem sagt hérna komin og við höfum stærstu beinagrindina að henni.

Ég verð jafnframt að segja að ég vona að þessi ríkisfjármálaáætlun taki á komandi árum töluverðum breytingum, í henni verði meira af þeim upplýsingum sem við viljum fá sérstaklega til að ræða um en ekki svona margar blaðsíður um ýmis mál sem er kannski ekki eins áríðandi að ræða hér, þ.e. um stefnu á næstu árum í ríkisfjármálum. Í staðinn fyrir heildartölur verði það meira brotið niður svo ég reyni að koma því frá mér sem ég vildi segja.

Virðulegi forseti. Fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, hv. 6. þm. Suðurk. Oddný G. Harðardóttir, hefur farið yfir þetta, sá fulltrúi okkar sem þekkir þetta mest og formaður flokksins, Árni Páll Árnason, líka og aðrir þingmenn hafa farið inn í nokkur af þessum atriðum og gert að umtalsefni. Það er það sem mig langar líka að gera. Hér hefur til dæmis verið minnt á að ríkisstjórnin á síðasta kjörtímabili, sú sem var mynduð eftir kosningarnar 2009, tók við ríkissjóði með rúmum 200 milljörðum í halla sem einhver var að reikna hér út að gætu nálgast 300 milljarða á núvirði. Það var hin stóra mynd sem blasti við þeirri ríkisstjórn sem þurfti að fara í blóðugan niðurskurð. Margt af því samþykkti maður með óbragð í munni en var engu að síður nauðsynlegt og þess vegna bar maður alltaf þá von í brjósti, og það var stefna síðustu ríkisstjórnar, að þegar hagur ríkissjóðs og þjóðarhagur færi að skána yrði ýmsu af því skilað til baka.

Hér hefur verið gert að umtalsefni að það er ekki hægt að sjá neitt út úr þessari þingsályktunartillögu um ríkisfjármálaáætlun hvað menn ætla að gera varðandi lífeyri aldraðra og öryrkja. Það var spurt um það áðan og rætt um það sem ríkið, ríkissjóður og við öll skuldum í raun og veru að gangi til baka og þá fái fólk eitthvað af því til baka sem þá var skert. Þetta nefni ég sem einn lið sem ekki er hægt að finna í þessari áætlun nákvæmlega hvað eigi að gera. Ef til vill er það vegna þeirra þátta sem hér er laumað inn eða sett inn í nokkrum línum að óvissan er svo mikil við gerð kjarasamninga. Núverandi ríkisstjórn betrumbætir ekki með aðgerðaleysi sínu og glannalegum yfirlýsingum ýmissa ráðherra inn í kjaradeiluna sem magnast með degi hverjum það mikla og alvarlega ástand sem ríkir. Þeirri ábyrgð verður vísað beint á hæstv. ríkisstjórn og ábyrgð á því að tækifærið hafi ekki verið notað til aukins samráðs við stéttarfélögin í landinu til að reyna að komast að samningum án þess að til þeirra miklu verkfalla komi sem boðuð eru.

Auðvitað er alveg dæmalaust að í þessari áætlun er meðal annars fjallað um sölu á hlut ríkisins í Landsbankanum. Það hefur ábyggilega verið búið að búa til beinagrind af þessari þingsályktunartillögu og jafnvel prenta hana þegar flokksþing framsóknarmanna fór fram fyrr í þessum mánuði þar sem Framsóknarflokkurinn ályktaði alveg klárt að Landsbankinn skyldi ekki seldur. Þess vegna er mjög skrýtið að það skuli vera hér inni. Hvað á að gera gagnvart því? Á það kannski bara að bíða fjárlaganefndar að breyta þessari ríkisfjármálaáætlun miðað við að Landsbankinn verði ekki seldur ef stefna Framsóknarflokksins verður ofan á?

Á þeim stutta tíma sem okkur er ætlaður til að ræða þessa þingsályktunartillögu, aðeins tíu mínútum hverjum, getum svo að vísu komið aftur í fimm mínútur, langar mig að gera að umtalsefni lið sem heitir fjárfesting sem á árinu 2016 er áætluð 47,3 milljarðar. Kannski er ekki alveg hægt að nota þá tölu. Mér finnst betra að nota tölurnar fyrir árin 2017, 2018 og 2019, þær eru réttari, um 31 milljarður er að meðaltali settur í fjárfestingu. Þar vil ég gera til dæmis að umtalsefni að með þessari fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar get ég ekki séð að með nokkru móti verði það efnt sem er ályktun frá Alþingi um að hefja skuli byggingu Landspítala sem allra fyrst. Það var að vísu smátýra á lofti við fjárlagagerð þar sem sett var inn fjárveiting til að fullhanna meðferðarkjarnann og byrja á byggingu sjúkrahótels en ég get ekki séð með nokkru móti að þau fjárfestingaráform sem þarna eru dugi til að hefja byggingu meðferðarkjarnans. Það finnst mér mjög miður. Það er fjallað um það á einum stað í þessari áætlun að veitt sé fjármagn til að ljúka byggingu sjúkrahótels og ljúka fullnaðarhönnun á meðferðarkjarna Landspítalans. Þetta er bara engan veginn nægjanlegt og mér brá mjög við að sjá þetta. Þarna kemur fram í ríkisfjármálaáætlun allt annað en stjórnarherrarnir tala um á tyllidögum, að framkvæmdir séu jafnvel að hefjast. Sá sem hér stendur og talar er mikill baráttumaður fyrir því að sem fyrst verði byrjað að byggja. Ég sé ekki annað en að menn verði þá að finna upp aðrar leiðir og koma jafnvel með ný þingmál til að gefa í hvað það varðar.

Að sama skapi vil ég ræða um þær samgönguframkvæmdir sem líka er fjallað um. Eins og komið hefur fram mun ríkisstjórnin slá nýtt Íslandsmet í væntanlegri samgönguáætlun, ef hún verður einhvern tíma lögð fyrir þingið, Íslandsmet í því að gera nánast ekki neitt í samgöngumálum á næstu árum. Í þessari áætlun er fjallað um hvað gerist þegar ákveðnum verkum lýkur og þá er rétt að hafa í huga að þau verkefni voru öll ákveðin af síðustu ríkisstjórn og hófust í tíð hennar eins og framkvæmdir á sunnanverðum Vestfjörðum eða Norðfjarðargöng svo tekin séu tvö dæmi. Þegar þeim lýkur skapast svigrúm til að gera eitthvað. Miðað við ástandið í vegakerfinu og miðað við þarfir á mjög mörgum stöðum, jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem úti á landsbyggðinni, er það ekki nægjanlegt sem hér er verið að gera. Þess vegna er merkilegt að hlusta á hæstv. innanríkisráðherra í svörum við fyrirspurnum, m.a. frá mér fyrir viku eða tíu dögum, að vera hreinlega með ákall til okkar þingmanna um að við hjálpum til við það við meðferð á samgönguáætlun í þinginu að aukið fé komi inn í þennan mikilvæga málaflokk. Það segir mér að í samgönguáætluninni sem væntanlega er búið að samþykkja í stjórnarflokkunum og verður vonandi dreift hérna sem fyrst reynist það rétt sem grunur minn hefur verið um, að nánast ekkert fé er veitt til samgöngumála og verður lítið sem ekkert gert á næstu árum fyrir utan smálagfæringar á nokkrum vegarköflum ef svo má að orði komast.

Hér er líka mjög alvarlegur kafli um húsnæðismál en ég hef ekki tíma til að fjalla um það, a.m.k. ekki að þessu sinni, en hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir dró hérna fram hvað sagt er á einum stað og hvað sagt er svo á öðrum stað, að ef eitthvað gerist í ríkisfjármálum, t.d. vegna kjarasamninga, detti húsnæðismálin út eins og hér er verið að boða. Það er það sem við stöndum frammi fyrir nú, hæstv. félagsmálaráðherra hefur verið borinn ofurliði um það (Forseti hringir.) að fá frumvörpin sín kostnaðarmetin í fjármálaráðuneytinu og ekki lögð fram á Alþingi þannig að enn einu sinni er skilað auðu, nú á tveggja ára afmæli núverandi ríkisstjórnar.