144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[15:30]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði að verið er að vinna hörðum höndum að því að kostnaðarmeta þessar breytingar. Þetta eru stór og viðamikil mál. Hins vegar liggja náttúrlega fyrir stór og viðamikil mál á dagskrá þessa þings sem skiptir miklu máli að þingið vinni vel að. Ummæli hv. þingmanns komu mér eilítið á óvart þar sem hann hélt því fram að það væri venja ráðherra sem sitja í fjármálaráðuneytinu að stoppa mál í kostnaðarmatinu. Það getur kannski verið að það hafi verið venjan á síðasta kjörtímabili, en hæstv. fjármálaráðherra hefur margítrekað að verið sé að vinna í þessu máli. Við höfum svo sannarlega orðið vör við það í velferðarráðuneytinu með þeim fyrirspurnum sem við höfum fengið og höfum verið að svara eftir bestu getu og munum náttúrlega leggja okkur öll fram við að tryggja það að frumvarpið geti komið fram sem allra fyrst.