144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[15:32]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á húsaleigulögum. Þetta er viðamikið frumvarp í einum 40 greinum og það er lagt fram til þess að auka húsnæðisöryggi og réttarstöðu leigjenda á leigumarkaði og því ber að fagna.

Hér var við lýði verkamannabústaðakerfi sem var lagt niður af Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki rétt fyrir aldamótin síðustu. Það var séreignarkerfi með niðurgreiddum vöxtum og það er sú leið sem hefur verið mörkuð í íslenskum húsnæðismálum, að séreignarstefnan sé sú stefna sem eigi að halda í en með félagslegu ívafi. Því miður var það kerfi lagt niður, þó að á því hafi verið ágallar, sérstaklega af því að byggt hafði verið umfram þörf á einhverjum stöðum og það olli ákveðnum vandræðum innan kerfisins, en að megninu til þjónaði það tilgangi sínum mjög vel. Þá var lagt upp með að auka fé til leiguhúsnæðis, félagslegs húsnæðis, þar sem vextir voru niðurgreiddir, þ.e. þeir skyldu ekki vera hærri en 3,5% og ríkið borgaði muninn á þeim og markaðsvöxtum. Á hinn bóginn átti að auka útlán til almennra leiguíbúða og var það gert en án nokkurra alvöruskuldbindinga fyrir þá sem lánin fengu. Ekki byggðist upp raunverulegur almennur markaður því að þessir sömu aðilar seldu síðan eignirnar þegar þær hækkuðu í verði þegar 90% lánin komu og fasteignamarkaðurinn byrjaði fyrir alvöru að rjúka upp úr öllu valdi.

Það má því segja að með innkomu Íbúðalánasjóðs hafi verið mörkuð sú stefna að auka hlutdeild leiguhúsnæðis á íslenskum leigumarkaði og ég held að sú stefna út af fyrir sig sé farsæl. Bæði er óeðlilegt að fólk með takmörkuð fjárráð þurfi að axla þá byrði sem felst í lántökum vegna fjárfestinga í húsnæði og eins er það gott fyrir yngra fólk og ýmsa sem vilja sveigjanleika á húsnæðismarkaði að þurfa ekki að fjárfesta í húsnæði heldur geta leigt. Hins vegar þarf að tryggja að með vaxandi leigumarkaði sé húsnæðisöryggi þeirra sem þar búa tryggt.

Samfylkingin leiddi vinnu á síðasta kjörtímabili í húsnæðismálum og lagði ríka áherslu á almennan leigumarkað og lagði fram fjölmargar tillögur í því efni. Þær voru síðan unnar áfram. Ákveðinn grundvöllur þess að hér verði hægt að byggja upp slíkt kerfi er að uppistaðan á leigumarkaði séu samfélagslega ábyrg félög sem ekki eru rekin með hagnaðarsjónarmiði og að þau njóti helst stofnstyrkja til þess að tryggja lægri leigu og þá geta opinberir aðilar fengið ákveðinn ráðstöfunarrétt í þeim eða eignarhlut á móti. Einnig að komið verði á húsnæðisbótakerfi þannig að fólk í leiguhúsnæði, sem að öðru jöfnu mundi njóta vaxtabóta ef það ætti húsnæði, njóti sambærilegs stuðnings vegna húsnæðiskostnaðar.

Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hélt þessari vinnu áfram og þó að okkur finnist mörgum að fullhægt hafi gengið þá er vilji hennar ótvíræður í þessum efnum og þau tvö mál sem hér eru á dagskrá í dag eru sönnun þess. Við söknum auðvitað málsins um húsnæðisbætur og stofnstyrki og það er satt að segja ákveðnum annmörkum háð að ræða um breytingar á húsnæðismarkaði án þess að það liggi fyrir, því að það er stóra útgjaldafrumvarpið, það er frumvarpið sem skapar rammann utan um þá fjárveitingu sem þarf að koma inn í málaflokkinn til þess að tryggja húsnæðisöryggi. Húsnæðismálin eru vissulega stórt efnahagsmál eins og við höfum reynt hér á undanförnum árum, en einnig grundvallarvelferðarmál fyrir heimili landsins og því verður ekki mætt nema til verði kostað fé. Þannig er það bara. Það er í mínum huga fé sem er auðvelt að láta af hendi rakna því að það er grundvöllurinn að allri velferð að fólk búi við öryggi í húsnæðismálum.

Við í velferðarnefnd erum vel undirbúin að takast á við þetta verkefni. Í næstu viku er nefndavika og við höfum lagt það þannig upp að við erum tilbúin að kalla til gesti þegar búið verður að mæla fyrir málinu. Munum við reyna að tala við sem flesta meginaðila sem að þessum málum koma í næstu viku, en svo sendum við málið út til umsagnar eins fljótt og hægt er og þurfum auðvitað að bíða þess að allar umsagnir komi inn og slíkt. Síðan verðum við að velta því fyrir okkur hvernig við ætlum að afgreiða þessi mál ef ekki liggur fyrir fjárveiting inn í málaflokkinn.

Mig langaði að ræða hér einstaka liði frumvarpsins sem er, eins og ég sagði, nokkuð efnismikið. Markmiðið er að tryggja húsnæðisöryggi fólks eins og frekast er unnt. Ég vil benda á að það verður fyrst og fremst gert með auknu framboði af húsnæði til langs tíma í leigufélögum. Þegar ég tala um leigufélög þá á ég við, eins og ég sagði áðan, samfélagslega ábyrg félög sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða, þó að enginn ætli hér að skerða atvinnufrelsi þeirra félaga sem vilja leigja út á almennum markaði, en þau þurfa ekki að njóta sérstakra ívilnana af hálfu opinberra aðila.

Ég fer í gegnum þetta beint upp úr greinargerðinni og þar er fyrst bent á að hér er verið að afnema undanþágur sem, eins og hæstv. ráðherra fór yfir, lúta fyrst og fremst að leigufélögum til fólks í félagslegu húsnæði, hvort sem það eru námsmenn, öryrkjar eða fólk sem af einhverjum ástæðum getur ekki vegna lágra tekna tryggt sér húsnæðisöryggi með öðrum hætti. Þau félög sem þetta nær til hafa lýst yfir ákveðnum áhyggjum af þessu. Við í nefndinni munum að sjálfsögðu hlusta eftir þeirra sjónarmiðum. Mér heyrðist í máli hæstv. ráðherra að þegar væru komnar tillögur að ákveðnum breytingum án þess þó að víkja frá markmiði laganna, sem er að auka öryggi fólks. Við í nefndinni munum auðvitað reyna að leysa þetta eins og best verður á kosið þannig að allir geti setið sem sáttastir eftir.

Þá er fjallað um brunavarnir, þar er ekki verið að gera breytingar heldur bara að ítreka skyldu leigusala að tryggja að brunavarnir séu í lagi. Það er jafnframt verið að auka réttindi leigjenda til riftunar ef vanræksla viðhalds er viðvarandi af hálfu leigusala, þar er litið til reglna frá Norðurlöndunum.

Svo komum við að tryggingarfénu. Hér er komið í veg fyrir að krefjist megi fyrirframgreiddrar leigu en að það megi krefjast tryggingarfjár. Ég held að það sé til bóta að setja skýrari ramma utan um þetta. Það má hins vegar velta fyrir sér hvað sé eðlileg krafa um tryggingarfé og það er eitt af því sem nefndin mun fara yfir. Ég ætla ekkert að gefa út stórar yfirlýsingar um það hér, en ljóst er að það hefur valdið umtalsverðum vanda fyrir ákveðna hópa þegar fólk þarf að leggja fram háar fjárhæðir fyrir fram. Það er því mjög mikilvægt atriði að bæði sé verið að tryggja leigusalann sem á húsnæðið en aðalatriðið verður líka að vera og ekki síst, að fólk komist inn í húsnæði þrátt fyrir að það eigi ekki sparnað nema að takmörkuðu leyti.

Síðan kemur hér fram að brýnt sé að skoða hvaða leiðir eru færar til þess að flýta fyrir aðfarargerð þegar þær aðstæður eru uppi að leigjandi stendur ekki við leigusamning og neitar að yfirgefa hið leigða húsnæði í kjölfar riftunar. Ég gat ekki séð í fljótu bragði að í raun væri verið að leggja slíkt til í frumvarpinu, og það er þá eitthvað sem nefndin mun kannski skoða að einhverju leyti. Ég tel fyrst og fremst mikilvægt að eins og okkur finnst sjálfsagt að auka kvaðir á leigusala séu skyldur hans ríkari gagnvart þeim sem leigir, en það sé þá jafnframt tryggt að leigusali geti við vanefndir varið sig með sem bestum hætti, sé sannarlega um að ræða vanefndir en ekki einhverja neyðaraðstöðu fólks.

Svo eru, eins og ég sagði, ýmsar kvaðir varðandi tryggingarféð og vörslu þess og ég held að það sé allt til bóta. Hér er gerður greinarmunur á því hvort það er einstaklingur sem leigir út húsnæði eða félög sem gera það í atvinnuskyni. Það er sjálfsagt. Spurningin er hvort það megi ekki lengja enn frekar uppsagnartímann ef í hlut eiga félög sem rekin eru í atvinnuskyni, hvort ekki eigi að leggja ríkari skyldur á þau. En ég sakna þess jafnframt, af því að það er sjálfsagt að leggja ríkari skyldur á þau, að samhliða séu lagðar fram tillögur sem fram höfðu komið um rekstrarumhverfi leigufélaga til þess að gera það þægilegra. Og það er ekki heldur verið að leggja til skattfrelsi á útleigu á einni íbúð af hálfu einstaklinga, það hefði verið heppilegt að láta það fylgja með sem og aukinn fjárhagsstuðning við leigjendur. Það er óheppilegt að vera með þetta svona sundurliðað til umfjöllunar.

Hér er einnig rætt um úttektaraðila og reynt að liðka fyrir því og gera það auðveldara að leigusali og leigutaki komi sér saman um úttektaraðila og hvernig því er háttað. Settar eru skýrari skorður um eftirlit með leigumiðlurum, en fram hafa komið ítrekaðar áhyggjur, ekki síst frá Neytendasamtökunum, um eftirlit á leigumarkaði. Bæði er skortur á upplýsingum um leigumarkaðinn vegna þess að ekki er alltaf gætt að því að þinglýsa leigusamningum og hins vegar er þetta eftirlit í höndum ráðherra, sem hefur eftirlit með leigumiðlurum. Það þarf kannski að herða enn frekar á því að eftirlitið sé meira með þessum markaði. Það er eitt af því sem við munum jafnframt skoða í velferðarnefnd.

Ég vil að lokum ítreka, auk þeirra annmarka sem ég hef talað um, að hér skortir stóra útgjaldafrumvarpið sem gagnast fyrst og fremst leigjendum en ýtir líka undir aukið framboð af leiguhúsnæði með stofnstyrkjum. Þess sakna ég, en að öðru leyti vil ég fagna framkomu frumvarpsins. Ég hef nú þegar farið yfir þætti sem ég tel að nefndin eigi að skoða nánar og svo hafa komið fram athugasemdir utanaðkomandi aðila sem við munum fara yfir og taka afstöðu til. En ég held að það hafi verið tímabært að leggja fram frumvarp sem þetta og mikilvægt að skýra leikreglur sem best á leigumarkaðnum og tryggja öryggi leigjenda en jafnframt skýrar skyldur sem og réttindi leigusala.